Skiptar skoðanir eru á meðal að­dáanda Bachelorsins um áttunda þátt seríunnar eftir ó­vænta upp­á­komu og niður­stöðu þáttarins. Í þættinum heim­sótti Peter Weber, einnig þekktur sem Pilot Pete, heima­bæ þeirra fjögurra keppanda sem eftir voru í byrjun þáttarins, Hannah Ann Sluss, Madi­son Prewett, Kels­ey Weier og Victoria Fuller.

Höskuldar­við­vörun fyrir þau sem ekki hafa horft á áttunda þáttinn í þátta­röðinni.

Fyrr­verandi olli fjaðra­foki

Hug­myndin var að Pilot Pete myndi snæða kvöld­verð með for­eldrum kvennanna sem eftir eru sem hann og gerði í þremur til­vikanna. Bachelorinn komst hins vegar aldrei inn fyrir dyrnar hjá for­eldrum Victoriu á Virginu Beach.

Parið byrjaði á því að fara á rómantískt stefnu­mót með vinum og kunningjum Victoriu í heima­bæ hennar þar sem var sungið og dansað á einka­tón­leikum við sveita­tón­list. Þegar ballinu var að ljúka hljóp stúlka í galla­jakka með af­máð and­lit á eftir Pete og stöðvaði för hans.

Vildi vara við Victoriu

Um­rædd stúlka reyndist vera fyrr­verandi kærasta Pete að nafni Merissa, en þau höfðu verið saman árið 2012. Merissa upp­ljóstraði því að þar til ný­lega hefðu hún og Victoria verið góðar vin­konur en að hún hafi mætt á við­burðinn til að vara Pete við.

Merissa sagði Bachelorinn eiga betra skilið en Victoriu. Þá sakaði hún hana um að hafa eyði­lagt fjöl­mörg sam­bönd og að keppandinn væri al­mennt ekki neitt sér­stak­lega góð manneskja.

Peter Weber og Victoria Fuller eiga í stormasömu sambandi.

Drama allan daginn

Pete var að vonum nokkuð skelkaður og spurði Victoriu út í á­sakanirnar fyrir framan húsið hennar. Victoria neitaði að veita nokkur smá­at­riði um málið og sagðist ein­fald­lega vera mis­boðið. „Þetta er svo mikið drama,“ bætti hún við.

Bachelorinn gat ekki hugsað sér að hitta fjöl­skyldu Victoriu eftir að hafa ný­heyrt á­sakanirnar í hennar garð. Þegar Victoria stakk upp á því að þau skyldu sleppa því reiddist hann yfir því að hún vildi ekki berjast fyrir sam­bandi þeirra. Næsta dag baðst Victoria af­sökunar og fékk í lok þáttarins rós að launum. Kelsey var send heim með sárt ennið.

At­burða­rásin hefur vakið bæði spurningar og von­brigði að­dáanda þáttanna sem hikuðu ekki við að gagn­rýna Pilot Pete fyrir lé­lega dóm­greind og slæmt minni. Hvað sem því líður þykir ljóst að næsti þáttur verði ansi spennandi.