Söngkonan Britney Spears er laus undan ægivaldi föður síns, sem gegndi í áraraðir hlutverks lögráðamanns hennar en fyrrverandi eiginmaður hennar Jason Alexander getur hins vegar ekki um frjálst höfuð strokið lengur.
Hann hefur verið dæmdur 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ofsóknir í garð ónefndrar konu í Tennessee. Frá þessu greinir saksóknarinn Kim Helper við TMZ. Alexander játaði 4. janúar að hafa ofsótt konuna en hvernig sambandi þeirra var háttað vildi hún ekki segja.

Samkvæmt samkomulagi sem hann gerði við saksóknara má hann ekki hafa samband við hana og þarf að undirgangast geðmat og vímuefnapróf af handahófi.
Britney og Alexander áttu í sambandi árið 2004. Þau giftu sig í Las Vegas en hjónabandssælan stóð stutt því það var ógilt einungis 55 klukkustundum síðar. Síðar sagði Alexander að teymi Britney hefði neitt þau til að slíta sambandinu og komið í veg fyrir að þau ættu í samskiptum eftir það.
Hann hefur átt við erfiðleika að stríða undanfarin ár og var dæmdur fyrir ölvunarakstur og að vera með vímuefni í sínum fórum í janúar í fyrra. Hann var síðan handtekinn í ágúst fyrir að fara inn á öryggissvæði á flugvellinum í Nashville.