Söng­konan Brit­n­ey Spears er laus undan ægi­valdi föður síns, sem gegndi í ára­raðir hlut­verks lög­ráða­manns hennar en fyrr­verandi eigin­maður hennar Jason Alexander getur hins vegar ekki um frjálst höfuð strokið lengur.

Hann hefur verið dæmdur 12 mánaða skil­orðs­bundið fangelsi fyrir of­sóknir í garð ó­nefndrar konu í Tennes­see. Frá þessu greinir sak­sóknarinn Kim Hel­per við TMZ. Alexander játaði 4. janúar að hafa of­sótt konuna en hvernig sam­bandi þeirra var háttað vildi hún ekki segja.

Jason Alexander árið 2004.
Fréttablaðið/Getty

Sam­kvæmt sam­komu­lagi sem hann gerði við sak­sóknara má hann ekki hafa sam­band við hana og þarf að undir­gangast geð­mat og vímu­efna­próf af handa­hófi.

Brit­n­ey og Alexander áttu í sam­bandi árið 2004. Þau giftu sig í Las Vegas en hjóna­bands­sælan stóð stutt því það var ó­gilt einungis 55 klukku­stundum síðar. Síðar sagði Alexander að teymi Brit­n­ey hefði neitt þau til að slíta sam­bandinu og komið í veg fyrir að þau ættu í sam­skiptum eftir það.

Hann hefur átt við erfið­leika að stríða undan­farin ár og var dæmdur fyrir ölvunar­akstur og að vera með vímu­efni í sínum fórum í janúar í fyrra. Hann var síðan hand­tekinn í ágúst fyrir að fara inn á öryggis­svæði á flug­vellinum í Nas­hvil­le.