Í tilefni af nýútkominni bók Úlfars Bragasonar, Reykjaholt Revisited: Representing Snorri in Sturla Þórðarson’s Íslendinga saga, verður haldinn fyrirlestur í Auðarsal í Veröld – húsi Vigdísar á morgun, laugardaginn 15. janúar klukkan 14.

Bókin fjallar um mynd þá sem Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar dregur upp af Snorra Sturlusyni, um viðhorf og aðferðir sagnaritarans og textasamfélag hans. Í bókinni er lýsingin á Snorra og fjölskyldu hans í Reykholti greind og skýrð út frá frásagnarfræði verksins og ætlun höfundar með verkinu.

Greiningin byggir á viðamikilli og frumlegri rannsókn og er unnin út frá ýmsum fræðikenningum sem mjög eru á oddinum þessa stundina: svo sem minnisrannsóknum, frásagnarfræðum og tilfinningafræðum.

Kynnir er Þórunn Sigurðardóttir rannsóknarprófessor. Streymt verður frá fyrirlestrinum.