Siðmennt hefur fyllt í öll tíu plássin sem stóðu til boða fyrir pör sem vildu gifta sig að kostnaðarlausu.

Þrettán pör skráðu sig í hjónavígslu Siðmenntar á innan við klukkutíma eftir að tilkynnt var um að félagið myndi bjóða upp á slíka þjónustu.

Bæta við plássum

Inga Auðbjörg Straumland, formaður Siðmenntar, segir félagið muni bæta við plássum til að verða við eftirspurn.

„Öll plássin fylltust á klukkutíma. Við vissum ekkert hvernig þetta myndi fara með svona stuttum fyrirvara. Við erum að vinna í því að bæta við plássum fyrir framan og aftan,“ segir Inga í samtali við Fréttablaðið.

Í gær tilkynnti Siðmennt að félagið hyggðist bjóða kærustupörum eldsnögga, einlæga, skemmtilega og síðast en ekki síst löglega hjónavígslu mánudaginn 22. ágúst, þeim að kostnaðarlausu.

Tilefnið er breyting á lögum um hjónavígslur sem taka gildi um mánaðarmótin en þá færast ýmis verkefni um könnunarvottorð frá ráðuneyti yfir til sýslumanns, sem Inga segir að gæti lengt biðtíma.

Inga segir ánægjulegt að sjá góða aðsókn. Mörg pör hafi greinilega frestað brúðkaupinu of lengi og séð nú tækifærið til að klára þetta.

„Sum pör vita upp á sig sökina, ef svo mætti að orða komast,“ segir Inga. „Þetta er svona fallegt húmanískt spark í rassinn.“