Húsið sem Sigrún býr í ásamt Ingólfi Pálma manni sínum og sonum þeirra Franz Ísaki og Bóasi Pálma var byggt í kringum 1940. Það er því eitt af elstu húsunum á Kársnesi. Miklar breytingar hafa orðið á húsinu síðan það var fyrst byggt en undanfarið hafa Sigrún og Ingólfur staðið í allsherjarframkvæmdum á því.

„Upprunalega var þetta músagangur hjá okkur svo við ákváðum að taka eldhúsið í gegn. En svo endaði þetta á því að við urðum að rífa allt loftið og gera fokhelt heima hjá okkur,“ segir Sigrún og hlær.

Sigrún fær húsgögn oft gefins eða fyrir lítinn pening. Rauða sófasettið nýtur sín vel við bláan vegginn prýddan fallegum listaverkum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

„Þetta varð svolítið meiri framkvæmd en við héldum en í staðinn erum við komin með allt eins og við viljum hafa það.“

Hefur gaman af öllu litríku

Eins og áður segir var húsið byggt um 1940 en því var svo breytt á sjötta áratugnum og aftur á þeim níunda.

„Árið 2000 var húsið svo stækkað. Það var allt hólfað niður og mjög lokað. Ég vildi hafa það bjartara þannig að besta lausnin við því var að taka niður veggi. Ég hef alltaf haft gaman af öllu litríku og skemmtilegu og hef verið að nostra við að safna hlutum víðsvegar að hægt og rólega, en þeir hafa eiginlega aldrei smollið heima hjá mér fyrr en ég breytti. Núna meika allir þessir hlutir sens.“

Sigrún hefur mikið dálæti á gömlum munum sem hún finnur á mörkuðum.

Sigrún segist aðallega hafa keypt hlutina á netinu og á mörkuðum en uppáhaldsbúðin hennar er Portið í Kópavogi. „Hún er algjör snilld. Hún er eins og einhver hafi farið í Góða hirðinn og Kolaportið og blandað saman öllum fínustu hlutunum þaðan,“ útskýrir Sigrún sem segist hrifnari af notuðum hlutum en nýjum.

„Flest húsgögnin hjá mér eru notuð. Mér finnst ekkert gaman að eyða miklum peningum í húsgögn eða annað. Flest húsgögn hef ég fengið gefins eða fundið fyrir lítinn pening. Ég fer á nytjamarkaði og finn líka mikið á netinu.“

Ein planta á fermetra

Áhugi Sigrúnar á gömlum munum er slíkur að hún segist oft vera komin með allt of mikið af hlutum sem hún veit ekkert hvað hún á að gera við en hún er hrifnust af hlutum frá 6. og 7. áratugnum.

„Ég hef rosalega gaman af antik blómapottum. Ég held ég sé búin að fylla allt heimili mitt af þeim. Ég er örugglega með svona 130 plöntur í 130 fermetrum, svo fyrir hvern fermetra er ein planta,“ segir Sigrún hlæjandi. Hún á þó ekki ennþá 130 antik blómapotta.

Þessi steinhleðsla kom í ljós við framkvæmdir og fær nú að njóta sín við litríkan vegginn.

Sigrún og Ingólfur reka saman húðflúrstofuna Bleksmiðjuna þar sem þau hafa unnið saman í næstum 10 ár.

„Við höfum haft mikinn tíma undanfarið því við máttum ekki vinna en við byrjuðum aftur 4. maí svo það verður nóg að gera í sumar. En af því við höfum ekki mátt vinna hef ég haft extra mikinn tíma undanfarið. Ég hef verið að mála mikið og er að undirbúa myndlistarsýningu og er að selja eftirprentanir. Planið er að hafa myndlistarsýningu á árinu. Ég mála myndir með akríl á við og læt prenta þær í hágæða prenti og sel þær í takmörkuðu upplagi.“

Sigrún er með eitthvað af myndum eftir sig uppi á vegg hjá sér en segist vera að reyna að skipta þeim út.

„Mér finnst svo mikil sjálfhverfa að vera bara með myndir eftir sjálfa mig á veggjunum þannig að ég er hægt og rólega að safna myndum eftir aðra listamenn.“

Í samkomubanninu nýtti Sigrún tímann í að mála myndir.

Teikningarnar hennar Sigrúnar eru ofsalega fallegar og greinilegt að hún hugsar út í hvert smáatriði en sömu sögu eru að segja um húðflúrin. „Húðflúrin vinn ég eftir stafrænni hönnun en þau eru öll mín hönnun.“

Garðvinna fram undan

Sigrún segir að nú séu þau hjónin komin í smá hlé frá því að gera upp húsið fyrir utan að setja upp panel á einum stað þar sem hann vantar. En fram undan er meiri garðvinna.

„Við erum með risa garð. Við girtum af lóðina því við erum með tvo sankti bernharðshunda. Svo erum við búin að setja stétt fyrir framan hjá okkur og erum að fara að græja beðin. Við ætlum að setja upp kartöflugarða og ætlum líka að vera með gulrætur. Svo var ég að fá gefins gróðurhús svo það er planið mitt að vinna í því í sumar ef ég hef einhvern tíma.“

Listaverkin hennar Sigrúnar má skoða bæði á Facebook síðunni Sigrún Rós Artwork og á Instagram undir sigrunrosart og húðflúrin hennar má sjá á Facebook síðunni Sigrún Rós Bleksmiðjan