Fylgjendahópur Auðuns Lútherssonar, einnig kallaður Auður, fer ört minnkandi á samfélagsmiðlinum Instagram. Fækkunin á sér stað í kjölfar ásakana um kynferðisbrot af hans hálfu.
Síðastliðna viku hafa yfir 2.300 manns hætt að fylgja tónlistarmanninum og alls rúmlega þrjú þúsund á síðastliðnum mánuði. Fylgjendahópurinn hefur því minnkað um í kringum fjórðung á stuttum tíma.
Í byrjun maí var síða Auðar með yfir 12.800 fylgjendur á samfélagsmiðlinum en talan stendur nú í 9.722.
Undanfarna viku hafa sífellt fleiri kallað eftir því að fólk styðji þolendur í verki með því að hætta að fylgja áhrifavöldum sem hafa verið sakaðir um ofbeldi. Ekki eru allir sammála um að það sé besta leiðin til að taka afstöðu gegn gerendum og hafa margar umræður skapast um hvað sé best að taka til bragðs.
Blaut tuska í andlitið
Borið hefur hátt á umræðum um meint brot Auðuns á samfélagsmiðlum síðastliðna daga og hafa ásakanirnar orðið til þess að Auður mun ekki koma fram á tónleikum Bubba í komandi viku eða á sviði Þjóðleikhússins í uppsetningu Rómeó og Júlíu næsta haust.
Auðunn sendi frá sér yfirlýsingu á mánudaginn þar sem hann baðst afsökunar og kvaðst hafa gengið yfir mörk. Tónlistarmaðurinn þvertók þó fyrir flökkusögur um alvarleg afbrot.
Í kjölfar afsökunarbeiðninnar stigu þrjár konur fram í fyrsta skipti og lýstu kynferðislegu ofbeldi af hálfu Auðuns. Tvær þeirra sögðu afsökunarbeiðnina hafa verið „eins og blauta tusku í andlitið.“