Í fyrstu viku nóvember er væntanleg ný plata frá tónlistarmanninum Ólafi Arnalds. Hún hefur hlotið heitið some kind of peace, og er að hans eigin sögn persónulegasta efnið sem hann hefur gefið út til þessa. Nú þegar er búið að gefa út fjögur lög af plötunni, en í gær kom út lagið Loom, sem hann vann í samstarfi við hinn heimsþekkta breska raftónlistarmann Bonobo.

„Platan og gerð hennar hefur átt hug minn allan undanfarið. Ég var hálfnaður með hana þegar COVID-19 skall á og ég kláraði hana í fyrstu bylgjunni, svona þegar allir voru læstir inni. Ég fór aðeins út í þær pælingar að gera eitthvað örlítið persónulegra en ég hef gert áður. Hingað til hef ég unnið meira í kringum einhver þemu. Þannig að þetta er í fyrsta sinn sem maður er að vinna tónlist sérstaklega út frá persónulegri líðan,“ segir Ólafur.

Hann viðurkennir að hafa forðast það í gegnum tíðina að gerast of persónulegur í tónsmíðum sínum.

„Ég var byrjaður að vinna plötuna, en svo upplifði ég það sem nokkurs konar staðfestingu á því að ég var að stefna í rétta átt þegar COVID skall á. Hvað er það sem við lifum fyrir hérna? Áður var ég mikið að fela mig á bak við einhver „concept“. Þar sem maður býr til einhverjar stórar hugmyndir eða einhvern heim. Núna ákvað ég að sleppa öllu svoleiðis. Það er enginn heimur sem ég bjó til hérna, þetta eru bara hlutirnir sem ég er að upplifa,“ segir hann.

Ólafur viðurkennir að það stressi hann vissulega eilítið að bera svona sálina í tónum.

„Já, það er alltaf smá stressandi en þetta er nú alltaf temmilega abstrakt enda „instrumental“ tónlist. Þannig að ég segi aldrei neitt beint út með orðum, en maður heyrir samt alveg á tónlistinni að þetta er miklu persónulegra en það sem ég hef gefið út áður. Það eru alls konar hlutir sem fólk getur rýnt í. Ég opinbera áður óséðar hliðar.“

Ólafur var hálfnaður með some kind of peace þegar heimsfaraldurinn skall á.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Stemningin dó hratt

Hann segist sjálfur hafa haft það þokkalegt í gegnum þessa fordæmalausu tíma.

„Fyrst þegar faraldurinn skall á var eins og þorri listafólks kæmist í einhvern gír. Fólk vildi gera og skapa rosalega mikið. Ég hef aldrei fengið jafnmikið af uppástungum um samstarf og ég fékk þá. Það var eins og að allir hugsuðu: „Nú er samkomubann og við ætlum að nýta tíma til að gera ótrúlega mikið af tónlist.“ Síðan breyttist það á nokkrum vikum. Heimsfaraldur sem er að ógna mannkyninu? Þetta eru kannski ekki bestu aðstæðurnar til að vera skapandi. Þessi stemning dó hratt út,“ segir Ólafur og viðurkennir fúslega að hann hafi verið í nákvæmlega sömu pælingum.

„Ég var eins fyrst og ætlaði að nýta tímann í að skapa. Síðan áttar maður sig hægt og rólega á alvarleika málsins. Þetta eru ekki endilega aðstæðurnar sem maður getur verið hvað mest skapandi í og þær myndu í það minnsta lita mjög efnið. Hættan yrði sú að hún yrði fljótt þreytt. Ég hef reynt að passa mikið upp á þetta. Músíkin sem maður gerir litast auðvitað alltaf af aðstæðunum sem maður er í, en ég reyni að tengja aldrei beint við þetta ástand. Þetta líður hjá og eftir þrjú ár nennum við ekkert að hlusta á plötur um COVID. Við munum frekar vilja gleyma þessu eins hratt og við getum,“ segir hann.

Fresta varð tónleikarferðalagi Ólafs um ár.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hugsað í lausnum

Ólafur er gríðarlega farsæll tónlistarmaður á erlendri grundu og fylgir alla jafna plötum sínum eftir með stórum tónleikaferðalögum. Fresta varð um sextíu tónleikum vegna heimsfaraldursins.

„Ég ætti að vera á tónleikaferðalagi akkúrat núna. Ef þú ferð inn á síðuna mína stendur líklegast þar að ég sé í París. Við frestuðum öllum tónleikunum núna í haust um ár, síðan verður að koma í ljós hvernig það fer. Það er ekkert víst að það verði hægt eftir ár heldur. Þetta er búið að vera alveg ótrúlega áhugavert ár upp á þetta að gera. Við vissum það eiginlega strax í apríl að ekkert yrði úr tónleikaferðalaginu. Síðan þá erum við því búin að vera stanslaust að pæla: Hvað gerum við þá?“ segir hann.

Það sé alltaf vaninn að fara á tónleikaferðalag samhliða plötuútgáfu.

„Þetta er bara nokkurs konar „lúppa“. Túrinn styður plötuna, platan styður túrinn. Þannig virkar bara einhvern veginn bransinn. Allt í einu er þetta tekið af okkur. Maður getur ekki orðið reiður því þetta er engum að kenna. Þannig að ég fór bara beint í það að velta fyrir mér hvað ég ætti þá að gera. Þannig að við höfum stanslaust hugsað um það seinustu mánuðina hvernig við komum fólki saman, þú veist, að fólk upplifi eitthvað saman. Þessi samupplifun er svo ótrúlega mikilvæg á tónleikum. Og líka, hvernig segjum við söguna? Tónleikar eru svo mikið tækifæri tónlistarmannsins til að segja söguna í músíkinni,“ segir hann.

Það sé því stór partur af upplifuninni í tengslum við tónlistina að fá að upplifa listamanninn flytja verkið.

„Við veltum því mikið fyrir okkur hvernig við kæmum þessu til skila. Er það með myndböndum eða streymi í beinni? Þannig að þetta er búið að vera alveg ótrúlega áhugavert ferli í rauninni, að reyna að finna út úr þessu.“

Í júlí var tilkynnt að Ólafur hafi verið tilnefndur til Emmy-verðlauna fyrir titillagið í Defending Jacob.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Prísar sig sælan

Ólafur viðurkennir að hann sé einn af þeim fáu heppnu íslensku tónlistarmönnum sem gátu nokkurn veginn treyst á tekjur ótengdar tónleikahaldi.

„Ég er heppinn miðað við marga. Spilunin í raun bara jókst ef eitthvað er, kannski passar músíkin svona við ástandið,“ segir hann og hlær. En ég finn mjög mikið til með meira „lókal“ listamönnum, íslensku tónlistarfólki að vinna á Íslandi. Það er komin upp alveg ótrúlega viðkvæm staða. Þegar svona kemur upp þá er það náttúrulega alveg hrikalegt. Það þarf að finna eitthvað út úr þessu, annars missum við þennan einstaka tónlistarbransa sem við eigum,“ segir Ólafur

Eins og áður kom fram nýtur Ólafur þó nokkurrar velgengni á erlendri grundu. Átti hann til að mynda lag í The Hunger Games þríleiknum, hlaut BAFTA-verðlaun fyrir tónlist sína í bresku sakamálaþáttunum Broadchurch og var tilnefndur til Emmy-verðlauna í ár fyrir titillagið í þáttunum De­fending Jacob. Tilnefningin barst í júlí og var Ólafi strax ljóst að hann væri ekki á leið út á hátíðina.

„Ég fylgdist bara með í sófanum heima í náttfötunum, á Zoom í beinni. Hátíðinni var streymt í ár og það yfir fjögur kvöld svo það yrði ekki bara eitt fimm tíma streymi. Fyrir þá sem voru tilnefndir voru Zoom-hittingar, til að skapa einhverja baksviðsstemningu. Þetta var allt svona hálfþvingað og stíft,“ segir hann og hlær.

Vann með Sam Smith

Undanfarið hefur Ólafur verið að vinna að tónlistarmynd í samstarfi við franskan leikstjóra og Íslenska dansflokkinn.

„Þetta var svolítið mín lausn við þessari stóru pælingu í kringum það hvað maður getur gert núna til að vera skapandi og miðla tónlistinni. Þetta er í raun mynd sem mun fylgja plötunni. Hún segir söguna samhliða plötunni,“ segir hann.

Ólafur kemur fram á Iceland Airwaves-hátíðinni sem fer fram í gegnum streymi í ár.

„Ég hef spilað nokkrum sinnum á hátíðinni áður. Planið í ár er að vera í frekar kósí stemningu, þetta verður smá svona heima-í-stofu fílingur.“

Inntur eftir hans draumasamstarfi, segist hann hafa verið svo heppinn að hafa unnið með mörgum af þeim sem hann dreymdi um að vinna með.

„Ég hef verið svo heppinn að fá að vinna með mörgum af þeim síðustu árin. Ég vann til dæmis með Sam Smith í sumar og Bonobo er á plötunni minni. Síðan er JFDR líka á plötunni, hún er ein af mínum uppáhaldslistamönnum, nokkurn tímann. Ég hef átt í svo frábæru samstarfi að ég vil eiginlega ekki segja neitt, svo ég „jinxi“ þetta ekki.“

Tónlistarmaðurinn hefur verið með annan fótinn á Balí síðustu ár.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Góður andi á Balí

Ólafur er búsettur á Balí og á Íslandi.

„Ég hef ekki komist til Balí síðan í febrúar og ég veit ekki hvenær ég kemst næst. Landið er eiginlega lokað. Upphaflega kynntist ég Balí í gegnum vini sem höfðu flust þangað. Þá fór ég að heimsækja þá og fann fljótt hvað mér leið vel þar. Ég fæ innblástur frá menningunni og sögunni, ég fæ alltaf eitthvað „boost“ þegar ég er þarna.“

Smám saman eignaðist hann fleiri og fleiri vini á eyjunni.

„Einhvern veginn sjálfkrafa var maður allt í einu kominn með hús þarna. Þetta var einhvern veginn svo lítil ákvörðun. Kærastan mín ólst þarna upp líka. Hún er búin að vera hérna hjá mér eftir að faraldurinn skall á, komst hingað áður en að landamærunum var lokað. Þannig að við erum nokkurn veginn bundin þessum stað þar til við komumst aftur út,“ segir Ólafur.

Some kind of peace er væntanleg 6. nóvember.