Leiksýningin Guide to Guiding, með Ingimar Bjarna Sverissyni í aðalhlutverki, er komin aftur í sýningar og í þetta sinn loksins með rétta áhorfendurna á landinu, ferðamenn.

Ingimar Bjarni fer þar með hlutverk leiðsögumannsins Ríkharðs Snæbjarnar Snorrasonar sem sýnir ferðamönnum hálendi Íslands, en Ingimar er einmitt alkunnugur. Auk þess að vera leikari hefur Ingimar farið um víðan völl í ferðamennskunni og á margar skemmtilegar sögur í pokahorninu.

Hvað er það versta sem hægt er að gera sem leiðsögumaður á Íslandi?

„Gleyma farþegum úti í rassgati,“ segir Ingimar og hlær. Aðspurður segist hann ekki hafa lent í því en bætir við að það kæmi honum ekki á óvart ef hann heyrði um slíkt á Íslandi.

Hann segir að innan ferðamennskunnar séu mörg lítil samfélög. Allir þekkjast vel, sérstaklega hálendisleiðsögumennirnir.

En hver er besti leiðsögumaður Íslands?

„Besti leiðsögumaðurinn á Íslandi er sennilega Ríkharður Snæbjörn Snorrason,“ segir Ingimar og glottir.

Ríkharður Snæbjörn Snorrason: Besti leiðsögumaður Íslands?

Ingimar vann að sýningunni árið 2019 ásamt Tryggva Rafnssyni, frænda sínum. Sýningin er á ensku, fyrir utan þrjár setningar á íslensku, en þegar komið var að frumsýningardegi árið 2020 hafði skollið á heimsfaraldur og því helsti áhorfendahópurinn ekki á landinu.

„Þetta er skrifað með ferðamenn í huga. Það er miklu sniðugra að sýna þessa sýningu núna en árið 2020,“ segir Ingimar og bætir við: „Við vorum þó heppin með Reykjavík Fringe. Ég held að hátíðin hafi akkúrat hafist eftir að afléttingar tóku gildi.“

En hvað er það við leiðsögn sem gerir góða sýningu?

„Í leiðsögn er maður með rosalega mikið af fólki úr mismunandi áttum við óvenjulegar aðstæður. Fólk sýnir oft á sér hliðar sem það sýnir ekki dagsdaglega. Margir upplifa svona ferðir um hálendi Íslands sem hápunkt ævi sinnar,“ útskýrir Ingimar.

„Að sama skapi myndast mjög absúrd aðstæður sem eru gull í leiksýningu eins og þessa.“

Aðspurður hvað sé skrýtnasta upplifun hans, fyrir utan sögurnar sem koma fram í leiksýningunni, svarar Ingimar:

„Ég held að skrýtnasta upplifunin var þegar ferðamaður leit í augun á mér mjög alvarlegur á svip í miðjum túr og sagði: „Veistu, þú ættir að vera fasteignasali.“ Ég var mjög hissa og veit enn ekki í dag hvað hann ætti við með þessu. En ég ætla að halda mig við útivistina og leikhúsið í bili.“