Alls konar íslenska: Hundrað þættir um íslenskt mál á 21. öld er nýútgefin bók Eiríks Rögnvaldssonar þar sem íslenskan er skoðuð út frá fjölbreyttum vinklum. Bókin kom til út frá pistlum sem Eiríkur hóf að skrifa um málfar á Facebook.

„Ég birti þessa pistla bæði á minni eigin síðu og í ýmsum málfarshópum,“ útskýrir hann. „Fólk var oft að velta fyrir sér ýmsum atriðum í máli og mig langaði að nýta kunnáttu mína til að útskýra hitt og þetta sem fólk var að velta fyrir sér.“

Þetta vatt upp á sig og Eiríkur fór að skrifa ýmsa fróðleiksmola um allt mögulegt sem við kom íslenskunni.

„Þegar ég var búinn að vera að þessu í um það bil ár stofnaði ég minn eigin hóp til að koma þessu betur á framfæri,“ segir hann. „Nokkru síðar áttaði ég mig á því að ég væri kominn með heilmikið efni. Sumt af því ætti skilið lengri lífdaga en á samfélagsmiðlum. Ég safnaði þeim pistlum sem mér fannst helst eiga skilið lengra líf og fór með þá til Forlagsins. Úr varð þessi bók.“

Á Málspjallinu sem og öðrum hópum á Facebook skapast oft skemmtilegar umræður um íslensku, hvort sem um er að ræða málfræði eða orðagrín. Eiríkur tekur undir með að það sé mikill áhugi hjá stórum hópi Íslendinga um hvernig megi beita íslenskri tungu bæði rétt og á skemmtilegan hátt.

„Mig langaði að stýra þessum mikla áhuga í jákvæðari átt en hann fer oft,“ segir Eiríkur og bendir á að umræðan snúist oft út í að gagnrýna eða kvarta undan orða- eða málnotkun fólks. „Það er í sjálfu sér skiljanlegt og sprottið út frá áhuga á tungumálinu en þessi neikvæða umræða er ekki alltaf mjög frjó. Mig langaði að beina henni í annan farveg og fræða fólk um uppruna ýmissa atriða í málinu.“

Mál í mótun

Eiríkur segir að sýn okkar á tungumálið eigi það til að vera mjög þröng. Það einskorðist ekki við íslenskuna heldur önnur mál líka.

„Hugmyndir okkar um tungumálið mótast á fyrstu árum okkar og fram til tvítugs. Við eigum til að halda að tungumálið sé og eigi að vera eins og það var í kringum okkur þegar við vorum að alast upp,“ segir hann. „Raunveruleikinn er sá að tungumálið er alltaf að breytast og var ekkert fullkomið þegar við vorum að alast upp. Það hafði líka breyst mikið síðan foreldrar okkar og foreldrar þeirra voru að alast upp þótt við séum ekki meðvituð um þær breytingar. Við sjáum hins vegar mun betur þær breytingar sem eru að eiga sér stað hjá næstu kynslóðum.“

Oft á tíðum eru þau atriði sem fólk rekur augun í eldri en fólk gerir sér grein fyrir. Stundum eru þau þó bara nýjungar.

„Spurningin er þá hvort þessar nýjungar séu bölvun sem spilli málinu á einhvern hátt,“ segir hann. „Halldór Halldórsson sagði oft að það þyrfti að heyra nýyrði sextíu sinnum til að taka þau sátt. Okkur þykir oft ný orð afkáraleg eða kjánaleg en ef þau komast í almenna notkun þá venjumst við þeim og tökum þau í sátt.“