Á morgun, laugardaginn 20. nóvember, verða liðin 120 ár frá fæðingu Þóris Baldvinssonar arkitekts. Sama dag gefur Sögumiðlun út bók um líf Þóris sem var í senn framúrstefnumaður í arkitektúr og hugsjónamaður í baráttu fyrir bættum húsakosti til sveita.

„Þórir fæddist í Köldukinn fyrir norðan og ólst upp við kröpp kjör,“ segir Ólafur Jóhann Engilbertsson sem ritstýrði bókinni.

„Hann dreymdi um að nema arkitektúr og þrátt fyrir að skipaferðir gátu verið erfiðar komst hann að lokum, eftir margra mánaða ferðalag, til San Francisco.“

Vestanhafs bjó Þórir í sjö ár og lagði stund á nám í arkitektúr og starfaði einnig fyrir byggingarfyrirtæki sveitunga sinna í Þingeyjarsýslu. Árið 1926 veiktist Þórir alvarlega af lömunarveiki og var um skeið vart hugað líf. Hann lá mánuðum saman á sjúkrahúsi og var frá störfum til ársins 1928.

Það var svo Jónas frá Hriflu, gamall sveitungi Þóris úr Kinninni, sem fékk Þóri til að koma heim til Íslands til að vinna að Teiknistofu landbúnaðarins þar sem Þórir gegndi forstöðu í fjóra áratugi og varð hans helsta starf.

„Hugmyndir hans fólust meðal annars í því að gera hagkvæm húsakynni til sveita þar sem kyndingarkostnaður var hár og þurfti að nýta hvern fermetra. Á starfstíma Þóris voru flestar eða nær allar jarðir endurhýstar bæði að íbúðar- og útihúsum.Þórir var frumkvöðull í gerð funkishúsa sem var nýr byggingarstíll á þeim tíma,“ segir Ólafur Jóhann.

„Þar á meðal má nefna funkishúsin við Ásvallagötu í Reykjavík og við Helgamagrastræti á Akureyri. Þórir varð þekktur fyrir fjölmargar byggingar er risu eftir teikningum hans bæði í Reykjavík og víða um landið, kaupfélagshús og héraðsskóla, einnig Alþýðuhúsið á Ísafirði og Mjólkurstöð KEA á Akureyri sem nú hýsir Listasafn Akureyrar.“

Húsaröð á Ásvallagötu árið 1934 í funkis-stíl Þóris.
mynd/aðsend

Þórir teiknaði einnig opinberar byggingar í Reykjavík eins og Alþýðuhúsið við Hverfisgötu og mjólkurstöðina við Laugaveg sem nú hýsir Þjóðskjalasafnið.

Auk Ólafs skrifa greinar í bókina Árni Daníel Júlíusson, Jóhannes Þórðarson, Ólafur Mathiesen og Pétur H. Ármannsson sem jafnframt tekur saman verkaskrá Þóris. Úlfur Kolka, barnabarnabarn Þóris, sér um útlit bókarinnar en hann hefur tekið ljósmyndir af helstu húsum hans um víða um landið.

„Ég elti hann eiginlega á vissan hátt sjálfur, því ég flutti sjálfur til Kaliforníu og bjó þar í nokkur ár,“ segir Úlfur og bætir við að bókin hafi verið ansi lengi í bígerð.

„Það eru komin næstum tíu ár síðan við ákváðum að gera bókina. Ég var sjálfur búinn að gera ljósmyndabók um hann 2008 þegar ég var að útskrifast úr grafískri hönnun en náði þá bara að gera húsin hans í Reykjavík.“

Aðspurður hvort eitthvað af húsum Þóris standi upp úr er Úlfur fljótur að svara.

„Uppáhaldshúsið mitt eftir hann er í eigu fjölskyldu minnar, gamla heimilið hans við Fornhaga,“ segir hann.

Útgáfuhóf verður í Safnahúsinu á Húsavík á laugardag klukkan 15.