Mitt besta fegrunarráð er að vera dugleg að hugsa um sjálfa sig, hvort sem það snýr að andlegum eða líkamlegum þáttum. Enginn gerir það fyrir mann, en hvað er fegurra en heilbrigð og hamingjusöm manneskja?“ spyr Heiður Ósk Eggertsdóttir förðunarfræðingur.

Hún sýndi snemma áhuga á öllu snyrtitengdu en það tók hana langan tíma að átta sig á því sjálf.

„Á menntaskólaaldrinum bentu vinkonur mér á að ég hefði extra „touch“ fyrir förðunarvörum og í framhaldinu jókst áhuginn með hverju árinu sem leið. Það var samt ekki fyrr en eftir að ég lauk háskólanámi að ég fór loks í förðunarnám en það leit ég á sem einhvers konar verðlaun fyrir að hafa klárað háskólann, eins furðulega og það hljómar,“ segir Heiður Ósk og hlær. „Mig langaði að læra eitthvað algjörlega frábrugðið viðskiptafræðinni og sé sannarlega ekki eftir þeirri ákvörðun í dag.“

Í sumar eru skærir litir í bland við pastelliti hæstmóðins og vinsælt að leika sér með litina og mála jafnvel augnlok og neðri augnlínu sitt í hvorum litnum. Bjartir varalitir eru ríkjandi og þá sérstaklega í bleikum tónum.

Frábær leið til tjáningar

Heiður Ósk segir samblöndun skærra lita og pastellita verða áberandi í förðun sumarsins.

„Litaðir augnblýantar koma sterkir inn og gaman að sjá hvað fólk er óhrætt að prófa sig áfram með þá, bæði ofan á augnlokin og í vatnslínu augnanna. Einlit augnlok í björtum litum verða áberandi og nú er mikið um það að hafa sinn litinn hvorn á augnlokinu og í neðri augnlínu.“

Kinnalitir verða áfram vinsælir en staðsetning þeirra breytist.

„Nú er byrjað að draga litinn hærra upp á kinnarnar og staðsetja hann nær sólarpúðri og „high­lighter“ frekar en beint á kinnbeinin. Bjartir varalitir verða að sjálfsögðu á sínum stað og bleiki liturinn verður allsráðandi,“ upplýsir Heiður Ósk.

Hún setur fáar reglur þegar kemur að förðun.

„Förðun er svo frábær leið fyrir fólk að tjá sig en ef ég ætti að mæla með einhverju er það að sleppa aldrei sólarvörninni. Við Íslendingar missum okkur stundum þegar glittir í sólina en það er gott að minna sig á að sólargeislar geta verið skaðlegir og við þurfum góða vörn, sérstaklega á andlitið.“

Gullið hörund kysst af sólskini þykir nú sem endranær eftirsóknarvert á sumrin.

„Yfir sumartímann er algengara að nota minna af farða og vera frekar útitekinn með freknur. Ljómakrem koma sterk inn því þau gefa húðinni aukinn frískleika og gaman að blanda þeim ofan í dagkrem eða farða. Þeir sem eru ljósir á hörund og eiga erfitt með að ná sér í náttúrulegan lit geta svo auðvitað notað kremkennd sólarpúður og kinnaliti til að ná fram þessu útitekna lúkki.“

Heiður Ósk segir förðun vera frábæra leið til tjáningar og því setji hún fáar reglur þegar kemur að förðun. Hún minnir þó á sólarvörn á andlitið í sumar. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Kærastinn í móttökunefnd

Í snyrtibuddu Heiðar Óskar leynast ótal spennandi snyrtivörur og áhöld.

„Þar sem þetta er atvinnan mín er mikilvægt að vera með puttann á púlsinum og prófa sem flestar nýjungar. Það segi ég kærastanum að minnsta kosti en hann er orðinn sjálfkjörinn formaður móttökunefndar á öllum pökkunum sem ég panta mér,“ segir hún og hlær.

„Það eru tvær snyrtivörur sem ég gæti ekki sleppt. Ég verð alltaf að geta gripið í brúnkukrem og varasalva. Brúnkukremið hefur komið mér í gegnum marga langa vetur og stundum fylgt mér í gegnum sumarið. Ég er síðan alltaf með varasalva og bæti á hann grimmt yfir daginn; ég funkera einfaldlega ekki með þurrar varir,“ segir Heiður Ósk kát.

Hún segir kremkinnaliti og kremsólarpúður verða ómissandi í sumar.

„Kremkenndar snyrtivörur gefa húðinni fallega og ferska áferð án þess að virka of þungar.“

Spurð hvort gerviaugnhár séu orðin staðalbúnaður í förðun ungra kvenna svarar Heiður Ósk:

„Nei, ég kveð ekki svo sterkt að orði en vinsældir þeirra hafa aukist með árunum. Á síðustu árum hefur framboð og úrval gerviaugnhára aukist til muna og það er frábært að sjá alla geta valið sér týpu sem hentar þeirra augnumgjörð. Flestir sem koma til mín í förðun biðja um gerviaugnhár en síðastliðna mánuði hef ég líka gripið mikið í stök augnhár.“

Líflegir litir og óheft tjáning er aðalsmerki sumarsins.

Förðun er stund slökunar

Ásamt því að vera sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur vinnur Heiður í tískuversluninni AndreA í Hafnarfirði ásamt því að vera gestakennari í Reykjavík Makeup School, þaðan sem hún útskrifaðist með diplómagráðu 2017. Sama ár útskrifaðist hún með BS-gráðu í viðskiptafræði.

„Draumurinn var að blanda þessum tveimur gráðum saman og eftir útskrift hef ég unnið hörðum höndum að því að láta drauminn rætast. Ég paraði mig saman við vinkonu mína, Ingunni Sig, þegar við stofnuðum fyrirtækið HI beauty í fyrra en það sérhæfir sig í snyrtinámskeiðum fyrir almenning sem vill læra að farða sig með eigin förðunarvörum. Þá höldum við uppi Instagram-síðu þar sem við deilum fróðleik um snyrti- og förðunarvörur.“

Sjálf setur Heiður Ósk á sig farða fyrir sjálfa sig og enga aðra.

„Tíminn sem ég nota í að farða mig upplifi ég líka sem slökun og „me-time“. Þrátt fyrir að ég elski snyrtivörur finnst mér gott að minna mig á að vera sátt við sjálfa mig án þeirra. Það er ótrúlega fallegt að sjá hvað snyrtivörur hafa gefið mörgum aukið sjálfstraust en mér finnst mikilvægt að allir átti sig á að sjálfstraustið kemur innan frá á meðan förðun ýtir einungis undir það.“

Sumarið er annatími hjá Heiði Ósk og hún hlakkar meðal annars mikið til að mega farða brúðir sumarsins. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Elskar annatíma sumarsins

Heiður Ósk segir allar konur geta tileinkað sér nýjustu tískustraumana í förðun.

„Auðvitað virkar ekki það sama fyrir alla en allar konur geta prófað sína útfærslu. Ég mæli alltaf með vel snyrtum og mótuðum augabrúnum því þær gera mikið fyrir andlitið en svo er gott fyrir hverja og eina að velja það sem þær vilja ýta undir og draga fram. Þegar við eldumst skiptir máli að hugsa út í hvar og hvernig förðun er staðsett á andlitinu. Ég má til að nefna ásetningu hyljara því með hækkandi aldri myndast línur í kringum augun og þá þarf að gæta þess að nota góðan hyljara sem ekki sest ofan í línurnar né eykur ásýnd þeirra. Þá þarf að passa að velja ekki of ljósan farða.“

Sumrin eru háannatími hjá Heiði Ósk enda tími útskrifta, brúðkaupa og spennandi viðburða.

„Ég elska sumrin og það bíða mín ófáar brúðir sem ég er spennt fyrir að fá að farða fyrir stóra daginn. Við hjá HI beauty erum líka með mörg járn í eldinum og stefnum á nokkur snyrtinámskeið yfir sumarið, og sjálf verð ég gestakennari á sumarnámskeiði í förðunarfræði við Reykjavík Makeup School. Þegar tími gefst ætla ég að reyna að skoða fallega landið okkar og njóta þess að hitta vini og fjölskyldu.“

Fylgstu með Heiði Ósk á Insta­gram: the_hibeauty, heidurosk og makeupbyheidurosk.