Sviðslistakonurnar Hallveig Kristín Eiríksdóttir og Selma Reynisdóttir, sem skipa leikhópinn Losti Collective, bregða sér í hlutverk grænlenskra sleðahunda í sýningunni Hunden bakom mannen sem verður sýnd í Tjarnarbíói á næstu dögum.
„Við unnum verkið fyrst úti í Finnlandi þar sem Selma býr og prófuðum að sýna verk í vinnsluútgáfu í leikhúsi í neðanjarðarbyrgi í Helsinki. Síðan tókum við það á Lókal-sviðslistahátíðina og unnum áfram og síðan þá erum við búnar að taka eina skorpu í viðbót við að breyta og bæta,“ segir Hallveig.
Að sögn hennar er verkið búið að vera hátt í tvö ár í þróun.
„Við áttum fyrst að fara til Grænlands í rannsóknarleiðangur en síðan kom Covid. Við vorum í samstarfi við grænlenska sleðahundasérfræðinga sem tóku upptökur fyrir okkur og útskýrðu fyrir okkur hvernig vináttutengsl og dýnamík myndast á milli sleðahunda.“
Okkur fannst svo fyndin pælingin að það er hundunum að þakka að Amundsen komst á suðurpólinn, en þeir höfðu ekki hugmynd um hvert þeir voru að fara.
Í ljósi sögunnar kveikti áhugann
Hunden bakom mannen byggist á kapphlaupi Norðmannsins Roalds Amundsen og Bretans Roberts Falcon Scott á Suðurskautslandið 1911, sem endaði með því að Amundsen komst fyrstur manna á landfræðilega suðurpólinn með hjálp hundrað grænlenskra sleðahunda. Áhuginn kviknaði þegar þær Hallveig, Selma og dramatúrg verksins, Gígja Sara Björnsson, unnu saman að öðru verki fyrir þremur árum.
„Við vorum að hlusta á Í ljósi sögunnar-þættina hennar Veru Illugadóttur, Kapphlaupið á suðurpólinn, þessa frábæru fjögurra þátta seríu. Við vorum svo ótrúlega inni í þessum þáttum og fannst þeir svo geggjaðir að okkur langaði að segja þessa sögu út frá sjónarhorni hundanna, bara sem grín. Síðan urðum við svolítið helteknar af þessari hugmynd.“
Að sögn Hallveigar uppgötvuðu þær Selma bókina Roald Amundsen’s Sled Dogs þar sem rithöfundurinn Mary R. Tahan kortleggur nöfn og örlög allra sleðahundanna sem fóru með í leiðangurinn á suðurpólinn út frá dagbókum Amundsens og hinna pólfaranna.
„Þar fær maður að heyra hverjir voru forystuhundar, hverjir voru vinir, hverjir voru óþekkir, hverjir hlupu hraðast, hverjir fæddu hvolpa og hvernig þeim leið. Sumir af leiðangursmönnunum elskuðu þessa hunda rosalega mikið og svo fór sem fór með þá,“ segir Hallveig en hundarnir hlutu flestir grimmileg örlög sem rakin eru í sýningunni.
Hjálp frá hundasérfræðingi
Hallveig og Selma urðu gjörsamlega heillaðar af sögu sleðahundanna og hlutverkinu sem þeir spiluðu í hinu sögulega kapphlaupi Amundsens og Scotts á suðurpólinn.
„Okkur fannst svo fyndin pælingin að það er hundunum að þakka að Amundsen komst á suðurpólinn, en þeir höfðu ekki hugmynd um hvert þeir voru að fara. Það er svo mikill sögulegur þungi í þessu en hundarnir sem voru mjög virkir þátttakendur vissu ekkert hvert þeir voru að fara eða hvers vegna.“
Hvernig fer maður að því að leika sleðahund?
„Við byrjuðum á því að skoða rosa mikið af myndböndum og svo á Selma hund. Maður er búinn að fylgjast mikið með hundum og herma eftir þeim. Við fengum mikla hjálp frá grænlenskum sleðahundasérfræðingi sem heitir Pipaluk Lykke. Síðan snerist þetta bara svolítið um að finna sinn innri hund. Gera hundalega hluti, vera á fjórum fótum, geispa lengi, hrista sig svolítið, nota eyrun til að horfa og sofa með skottið yfir trýnið,“ segir Hallveig kímin.
Sýna á stórri hátíð í Kanada
Hallveig og Selma ætla að leggja land undir fót, eða kannski réttara sagt land undir loppu, og sýna Hunden bakom mannen á stórri hátíð í Kanada næsta sumar auk þess sem þær stefna á að sýna verkið á Grænlandi 2023. Þær hafa nefnilega enn ekki náð að hitta grænlenska sleðahunda í eigin persónu.
„Þá loksins fáum við að hitta þessa hunda sem við erum að þykjast vera. Ég held að það verði bara að koma í ljós þá hvort okkur hefur tekist það eða ekki.“
Hunden bakom mannen er sýnt í Tjarnarbíói 11. og 13. apríl auk þess sem barnvæn útgáfa verksins verður flutt á hátíðinni UngA 9. apríl.