Sviðs­lista­konurnar Hall­veig Kristín Ei­ríks­dóttir og Selma Reynis­dóttir, sem skipa leik­hópinn Losti Collecti­ve, bregða sér í hlut­verk græn­lenskra sleða­hunda í sýningunni Hunden bakom mannen sem verður sýnd í Tjarnar­bíói á næstu dögum.

„Við unnum verkið fyrst úti í Finn­landi þar sem Selma býr og prófuðum að sýna verk í vinnslu­­út­gáfu í leik­húsi í neðan­jarðar­byrgi í Helsinki. Síðan tókum við það á Lókal-sviðs­lista­há­tíðina og unnum á­fram og síðan þá erum við búnar að taka eina skorpu í við­bót við að breyta og bæta,“ segir Hall­veig.

Að sögn hennar er verkið búið að vera hátt í tvö ár í þróun.

„Við áttum fyrst að fara til Græn­lands í rann­sóknar­leið­angur en síðan kom Co­vid. Við vorum í sam­starfi við græn­lenska sleða­hunda­sér­fræðinga sem tóku upp­tökur fyrir okkur og út­skýrðu fyrir okkur hvernig vin­áttu­tengsl og dýnamík myndast á milli sleða­hunda.“

Okkur fannst svo fyndin pælingin að það er hundunum að þakka að A­mund­sen komst á suður­pólinn, en þeir höfðu ekki hug­mynd um hvert þeir voru að fara.

Í ljósi sögunnar kveikti á­hugann

Hunden bakom mannen byggist á kapp­hlaupi Norð­mannsins Roalds A­mund­sen og Bretans Roberts Falcon Scott á Suður­skauts­landið 1911, sem endaði með því að A­mund­sen komst fyrstur manna á land­fræði­lega suður­pólinn með hjálp hundrað græn­lenskra sleða­hunda. Á­huginn kviknaði þegar þær Hall­veig, Selma og dramatúrg verksins, Gígja Sara Björns­son, unnu saman að öðru verki fyrir þremur árum.

„Við vorum að hlusta á Í ljósi sögunnar-þættina hennar Veru Illuga­dóttur, Kapp­hlaupið á suður­pólinn, þessa frá­bæru fjögurra þátta seríu. Við vorum svo ó­trú­lega inni í þessum þáttum og fannst þeir svo geggjaðir að okkur langaði að segja þessa sögu út frá sjónar­horni hundanna, bara sem grín. Síðan urðum við svo­lítið hel­teknar af þessari hug­mynd.“

Að sögn Hall­veigar upp­götvuðu þær Selma bókina Roald A­mund­sen’s Sled Dogs þar sem rit­höfundurinn Mary R. Tahan kort­leggur nöfn og ör­lög allra sleða­hundanna sem fóru með í leið­angurinn á suður­pólinn út frá dag­bókum A­mund­sens og hinna pól­faranna.

„Þar fær maður að heyra hverjir voru for­ystu­hundar, hverjir voru vinir, hverjir voru ó­þekkir, hverjir hlupu hraðast, hverjir fæddu hvolpa og hvernig þeim leið. Sumir af leið­angurs­mönnunum elskuðu þessa hunda rosa­lega mikið og svo fór sem fór með þá,“ segir Hall­veig en hundarnir hlutu flestir grimmi­leg ör­lög sem rakin eru í sýningunni.

Hjálp frá hunda­sér­fræðingi

Hall­veig og Selma urðu gjör­sam­lega heillaðar af sögu sleða­hundanna og hlut­verkinu sem þeir spiluðu í hinu sögu­lega kapp­hlaupi A­mund­sens og Scotts á suður­pólinn.

„Okkur fannst svo fyndin pælingin að það er hundunum að þakka að A­mund­sen komst á suður­pólinn, en þeir höfðu ekki hug­mynd um hvert þeir voru að fara. Það er svo mikill sögu­legur þungi í þessu en hundarnir sem voru mjög virkir þátt­tak­endur vissu ekkert hvert þeir voru að fara eða hvers vegna.“

Hvernig fer maður að því að leika sleða­hund?

„Við byrjuðum á því að skoða rosa mikið af mynd­böndum og svo á Selma hund. Maður er búinn að fylgjast mikið með hundum og herma eftir þeim. Við fengum mikla hjálp frá græn­lenskum sleða­hunda­sér­fræðingi sem heitir Pipaluk Lykke. Síðan snerist þetta bara svo­lítið um að finna sinn innri hund. Gera hunda­lega hluti, vera á fjórum fótum, geispa lengi, hrista sig svo­lítið, nota eyrun til að horfa og sofa með skottið yfir trýnið,“ segir Hall­veig kímin.

Sýna á stórri há­tíð í Kanada

Hall­veig og Selma ætla að leggja land undir fót, eða kannski réttara sagt land undir loppu, og sýna Hunden bakom mannen á stórri há­tíð í Kanada næsta sumar auk þess sem þær stefna á að sýna verkið á Græn­landi 2023. Þær hafa nefni­lega enn ekki náð að hitta græn­lenska sleða­hunda í eigin per­sónu.

„Þá loksins fáum við að hitta þessa hunda sem við erum að þykjast vera. Ég held að það verði bara að koma í ljós þá hvort okkur hefur tekist það eða ekki.“

Hunden bakom mannen er sýnt í Tjarnar­bíói 11. og 13. apríl auk þess sem barn­væn út­gáfa verksins verður flutt á há­tíðinni UngA 9. apríl.