Nú fyrr á árinu sló heimildarþáttaröðin Tiger King rækilega í gegn á Netflix. Í henni kynnumst við tigrísdýratemjaranum Joe Exotic sem situr nú í fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Hann var dæmdur fyrir að reyna að ráða dýraverndunarsinnan Carole Baskin af dögum.

Nú þegar 23 ár eru liðin frá hvarfi auðkýfingsins Jack „Don“ Lewis eru fyrst koma fram alvöru vendingar í rannsókninni á málinu. Don var giftur Carole Baskin og stofnuðu þau saman The Big Cat Rescue Corp. Hann hvarf sporlaust árið 1997, degi áður en hann átti að ferðast til Puerto Rico. Margir, þar á meðal dætur Dons, halda því fram að Carole hafi staðið að baki hvarfi föður þeirra. Carole hefur alltaf neitað sök en Joe Exotic heldur því fram að hún hafi myrt eiginmann sinn, gefið tígrisdýrunum og þar með bókstaflega komið honum fyrir kattarnef.

Á dögunum fundu leitarhundar lykt af líkamsleifum á lóð sumarhúss sem var í eigu Don Lewis. Hundarnir voru ásamt rannsóknaraðilum á vegum fjölskyldu Dons, og er þetta í annað skiptið sem hundarnir virðast sýna ákveðnu svæði í síki á landinu sérstaka athygli. Einkaspæjarinn Jim Rathman segir að litlar sem engar líkur séu á því að finna heilt lík í síkinu, enda sé mikið um krókódíla á svæðinu. Hann vonast til að leitin á þessu tiltekna svæði skili mögulega tönn eða öðrum leifum sem hægt sé að greina DNA á. Lögreglumenn á vegum Hillsborough-sýslu hafa rannsakað svæðið síðustu daga.

Carole Baskin tekur núna þátt í raunveruleikaþáttunum Dancing with the Stars. Dætur Dons keyptu auglýsingu í hléi þáttanna þar sem þær óskuðu eftir öllum upplýsingum sem gætu aðstoðað þær við að komast að því hvað varð um föður þeirra. Þótti þetta fast skot í garð Carole Baskin.

Rannsóknaraðilar höfðu tilkynnt að í sumar hefðu leitarhundar merkt lykt af líkamsleifum í síkinu.