Sunna Karen og Trausti fundu loksins draumaeignina eftir sex mánaða leit og voru svo heppin að tilboði þeirra var tekið. „Það var ekki mikið framboð og slegist um hverja eign sem kom á sölu,“ segir hún. Þau þurftu að bíða í fimm mánuði eftir afhendingu og þá tóku við fjórir mánuðir í endurbætur. „Íbúðin er í 20 ára gömlu húsi í Lágafellshverfinu í Mosfellsbæ. Sumt var komið á tíma auk þess sem við vildum gera heimilið eftir okkar smekk,“ segir Sunna. „Við máluðum alla íbúðina, skiptum um gólfefni og tókum baðherbergið alveg í gegn. Ég er svo heppin að pabbi er múrari og gat hjálpað okkur með alla flísalögn. Þar gátum við sparað mikinn kostnað,“ segir hún. Þau fluttu inn um páskana.

Sonurinn Ásgeir Jarl sem er 7 ára er mikill aðdáandi Liverpool eins og sjá má.

Íbúðin varð bjartari

Sunna og Trausti eiga tvö börn, Ásgeir Jarl, 7 ára, og Helenu Ósk, sem er tíu mánaða. Sunna er í fæðingarorlofi og hefur notað tímann til að gera herbergin þeirra falleg. „Það var bara eitt barnaherbergi í íbúðinni þannig að við tókum hluta af stofu til að gera annað. Börnin fá því hvort sitt herbergið,“ segir hún. Á gólfum íbúðarinnar voru dökkar náttúruflísar en þau ákváðu að setja ljóst eikarparket yfir sem er þægilegra þar sem lítil börn eru. „Það birti mikið til í íbúðinni við það eitt að skipta um gólfefni. Við máluðum síðan eldhúsinnréttinguna en við verðum að bíða í nokkur ár til að skipta henni út. Vildum láta baðherbergið vera í forgangi en það var heilmikil framkvæmd.“

Herbergi heimasætunnar, sem er aðeins tíu mánaða, er stelpulegt og fallegt. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Sunna segir að það hafi verið ákveðinn höfuðverkur að finna rétta litinn á íbúðina. Þau enduðu með að mála með lit sem heitir Sand. Sonurinn fékk að ráða sínu herbergi og valdi blátt. „Ég var mjög spennt að gera barnaherbergin falleg en þau eru sérstök í laginu, frekar þríhyrnd en kassalaga. Ég þurfti því aðeins að klóra mér í hausnum hvernig best væri að raða inn í þau til að nýta plássið sem best. Við prófuðum nokkrar útgáfur áður en við hittum á þá réttu. Held að það hafi bara tekist vel til,“ segir Sunna. „Sonurinn er mikill Liverpool-aðdáandi og herbergið ber þess merki. Ég keypti fataskáp fyrir hann, skrifborð og hillu. Sú litla fékk bara kommóðu en það voru engir skápar í herbergjunum. Nú á ég bara eftir að kaupa ljós og gluggatjöld. Það verður vonandi bráðlega,“ segir hún.

Falleg bleik himnasæng með blómaborða skreytir barnarúmið. „Ég var búin að hugsa mikið um það hvernig væri hægt að poppa upp herbergið hjá henni. Þá fann ég þessa blómalengju í Ikea og mamma saumaði hana á himnasængina. Síðan fann ég kassa í geymslu með fullt af dóti síðan ég var lítil og það kom að góðum notum núna.“

Takið eftir blómahringnum sem móðir Sunnu saumaði á himnasængina sem er yfir barnarúminu fallega bleik.

Barnvænt hverfi

Hverfið er mjög barnvænt, að sögn Sunnu, auk þess sem það er stutt fyrir hana í vinnuna. Hún er íþróttafræðingur og starfar með sjúkraþjálfurum á Reykjalundi. Hjónin bjuggu áður í kjallara hjá foreldrum hennar í Árbæ en Sunna segir að það sé mikils virði að búa skammt frá skóla og vinnu. Það sparar akstur í þungri umferð. Sonurinn æfir badminton eins og móðir hans en hyggst fara í fótbolta hjá Aftureldingu þegar hann verður örlítið eldri. Skólalóðin er notuð fyrir fótbolta þangað til. Íbúðin er við hliðina á Lágafellsskóla sem er mjög hentugt. Þá er bæði sundlaug og leikskóli stutt frá. „Sömuleiðis er golfvöllur hér skammt frá og það var ekki síst hans vegna sem við féllum fyrir þessu hverfi. Ég sé fyrir mér að við séum komin á framtíðarstað með allt til alls. Undanfarnir mánuðir hafa verið annasamir við framkvæmdir en ég vonast til að við getum slakað á í sumar,“ segir Sunna Karen en hún á að byrja aftur að vinna í september.

Það er alltaf fallegt að lífga upp á barnaherbergið með hlutum sem skipta máli.

Fengu góða hjálp

„Við vorum svo ákveðin að finna íbúð í þessu hverfi að ég skráði soninn í sex ára bekk í Lágafellsskóla. Síðan keyrði ég hann og sótti á hverjum degi úr Árbæ. Ég tel okkur vera heppin að hafa fundið þessa íbúð en það kom kannski á óvart hversu flókið og langt svona ferli er. Við erum ótrúlega ánægð með hvernig til hefur tekist þótt þetta hafi verið mikil vinna meðan á henni stóð. Eins og alltaf eru framkvæmdir kostnaðarsamar en við reyndum að gera sem mest sjálf og fengum góða hjálp,“ segir Sunna Karen. ■

Hillurnar sem Ásgeir fékk í herbergið sitt eru léttar og skemmtilegar.
Falleg uppröðun hjá þeirri litlu. Litlir hlutir skipta máli.
Sunna Karen hefur greinilega gaman af því að nostra við litlu hlutina.
Baðherbergið leit svona út þegar þau fengu íbúðina og ákváðu að byrja á því að taka það í gegn.
Fallegar flísar einkenna nýja baðherbergið og á gólfinu eru Versace flísar. Mikil breyting frá því sem var.
Smáhlutirnir eiga sér líka stað á baðherberginu. Þeir lífga sannarlega upp umhvefið. MYND/AÐSEND