Ekki er liðinn mánuður síðan tveir keppendur í víetnömsku útgáfunni af the Bachelor fönguðu hug og hjörtu heimsbyggðarinnar þegar þær felldu hugi saman. Þær Minh Tu og Truc Nhu kepptust báðar um hylli piparsveinsins Nguyen Quoc Trung en að lokinni rósafhentingu í einum þættinum tóku málin óvænta stefnu þegar Minh Tu lýsti því yfir að hún væri ástfangin af þeirri síðarnefndu. 

„Ég vildi fara heim með henni, það var það einfalt“

Myndskeið af atvikinu fór sem eldur um sinu um netheima þar sem Minh Tu lýsir því, í lokaræðu sinni í þáttunum, hvernig hún hafi skráð sig í þáttinn til þess að finna ástina. Hún sagðist hafa búist við því að falla fyrir piparsveininum, en á ferðalaginu hafi hún orðið ástfangin af annarri manneskju. Í þann mund gekk hún upp að Truc Nhu, gaf til kynna að hún væri ástfangin af henni og bað hana um að koma heim með sér. Stöllurnar sjást svo ganga saman út úr herberginu. 

„Þegar við vorum að taka upp rósaathöfnina, þegar Minh  var að tjá piparsveininum okkar tilfinningar sínum, var ég aftast í herberginu og heyrði ekkert,“Truc Nhu um daginn örlagaríka. 

„Ég vissi ekki hvað var að gerast fyrr en Minh  sneri sér við, kom til mín og bað mig um að koma heim með sér. Ég var mjög hissa, ég skildi ekkert hvað hvað var að gerast því ég gat ekki heyrt hvað var að gerast fremst í herberginu. En tilfinningar mínar voru á þann veg, að ef að Minh  er að fara heim, vil ég fara heim líka. Já ég vildi fara heim með henni, það var það einfalt.“ 

Neikvæðir netverjar og stuðningsríkar fjölskyldur

Þrátt fyrir að fyrrnefnt myndskeið sýni parið ganga út saman yfirgaf Truc Nhu ekki þáttinn strax, heldur ákváðu konurnar að kanna tilfinningar sínar í sitt hvoru lagi í nokkrar vikur enn. „Við þurftum smá tíma í sundur til þess að velta tilfinningum okkar fyrir okkur, hvort þær væru sannar,“ segir Minh . 

Ekki liðu þó nema örfáar vikur fyrr en Truc Nhu yfirgaf þáttinn og flaug á vit ástarinnar. Hennar heittelskaða sótti hana á flugvöllinn og þær búa nú saman. Aðspurðar um stuðning aðstandenda segjast þær báðar finna fyrir miklum stuðning, bæði frá vinum og fjölskyldu þó þær hafi orðið varar við neikvæð viðbrögð frá litlum hópi netverja, sem eru ekki sáttir við samband kvennanna. Þær segjast þó láta slíka neikvæðni sem vind um eyru þjóta og horfa björtum augum fram á við. 

„Ég hlakka til dagsins þegar hinn almenni Víetnami verður opnari í að styðja okkur og leyfa okkur að vera við sjálfar,“ segir Truc Nhu að lokum.