Hrist ryk á steini er yfirskrift sýningar Ólafar Helgu Helgadóttur sem stendur yfir í Gerðarsafni. Titilinn hripaði Ólöf á blað þegar hún hristist um holótta vegi landsins í aftursætinu: Hrist ryk á steini.

Í sýningarskrá segir: „Húmor og dægurmenning einkenna verk Ólafar og við sjáum vísanir í listasöguna í mínímalískum en glettnum skúlptúrum hennar þar sem fundin efni og hversdagsleiki fá nýja vídd í sýningarsalnum.“ Einnig segir: „Í verkum sínum ýtir Ólöf hversdagslegu efni út fyrir sitt hefðbundna hlutverk og varpar þannig óvæntu ljósi á kunnugleg sjónarhorn. Efnið sem hún notar hefur auk þess oft sögulega merkingu sem er mjög persónuleg.“

Þrjú verk eru á sýningunni. Þegar gestir koma inn í salinn blasa við þeim stórglæsilegar rauðar gardínur. „Þessar gardínur héngu uppi á æskuheimili mínu í Grindavík um 1980. Ég man að þegar sólin skein varð birtan í húsinu rauðleit. Þegar mamma ætlaði svo að henda þeim tók ég þær,“ segir Ólöf. „Það var eitthvað við þær sem heillaði mig. Ég vissi ekki nákvæmlega hvað ég ætlaði að gera við þær, en hugsaði með mér að tíminn myndi leiða það í ljós. Núna eru þær hér á sýningunni nálægt gluggum og þegar sólin skín skapast rauðleit birta.“

Annað verk á sýningunni heitir Skúlptúr étur skúlptúr. „Það er samansett af tveimur eldri verkum sem ég sýndi á samsýningu í Listasafni Árnesinga árið 2015. Um er að ræða plasthólk utan af teiknirúllu og inni í verkinu er pappír sem ég eignaðist þegar ég var að vinna á Landspítalanum. Þetta voru tveir sjálfstæðir skúlptúrar sem hafa nú sameinast.“

Þriðja verkið er myndbandsverk þar sem lottókúlur og þvottavél koma meðal annars við sögu. Hljóðrás myndbandsins er unnin af raflistakonunni Plasmabell.

„Maður fær ekki oft tækifæri til að sýna í svona stórum sal. Öll verkin spila saman og eiga að skapa heildstæða sýningu. Ég vildi hafa færri verk en fleiri og nýti einungis gólfrýmið, nota ekki veggina,“ segir listakonan.

Ólöf Helga útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2005 og lauk mastersnámi í myndlist frá Slade School of Fine Art í London árið 2010. Árið 2001 stundaði hún örnám við Kvikmyndaskóla Íslands. Hún býr og starfar á Siglufirði.

Sýningin er hluti af sýningaröð Gerðasafns, Skúlptúr/Skúlptúr.