Efnisveitur eins og Netflix, Hulu, Amazon Prime, Disney+ og hvað þetta heitir allt saman, ásamt VOD-leigum Símans, Vodafone og nú síðast Viaplay sem blandaði sér í stríðan strauminn í gær, eru vinsælar.

Topp 10 listi Netflix yfir það efni sem flæðir þyngstum straumi um hálf lamað samfélagið er uppfærður daglega og gefur þannig ágætis yfirlit yfir hvernig afþreyingu landinn sækir þangað í veirudoðanum og leiðindaveðrinu sem þessa dagana magnar drungann enn frekar.

Í gær voru erkifíflin í Tiger King: Murder, Mayhem and Madness enn örugg á toppnum og ekki neitt sérstakt fararsnið að sjá á þeim frekar en COVID-19. Kannski ekki furða þar sem á ferðinni er í raun heimildarmynd um snarbilað fólk í Bandaríkjunum sem heldur risaketti, tígrisdýr og skæð rándýr af undarlega þráhyggjukenndum og sjúklegum hvötum.

Alltaf uppörvandi að geta furðað sig á hversu skrýtið fólk getur verið í alvörunni á meðan maður er kannski sjálfur alveg á ystu nöf í framandi aðstæðum.

Safn af röskunum

Joe Exotic er aðalrugludallurinn í þessu galleríi af fólki sem er einhvern veginn hvert á sinn hátt holdtekja einhverra þekktra og misalvarlegra persónuleikaraskana.

Joe er hinn eini sanni Tígurkóngur sem þættirnir draga nafn sitt af en þó tæplega sá bilaðasti sem þarna stígur fram. Erkifjandi hans, „dýrverndarinn“ Carole Baskin væri sjálfsagt góði gæinn væri þetta skáldskapur en í raun reynist hún engu betri en Joe.

Bæði eru þau eins og leiðtogar sértrúarsafnaða og þéna ágætlega á eymd bæði dýra og fylgjenda þeirra sem elta illa innrætta foringja sína í blindni. Það eru einhvern veginn allir sem hér koma við sögu síðasta sort. Ömurlegt pakk og sorglegt lið.

Joe, Carole og enn ruglaðri furðufígúrurnar í Tiger King eru þannig manneskjur að flestir myndu líklega taka stóran sveig fram hjá þeim á förnum vegi. Alltaf og ekki bara á tímum farsóttar. En ómótstæðilegur er þessi skríll og rígheldur fólki við glápið þótt kláðinn eftir því að líta undan eða skipta um rás sé stöðugur.

E! News greindi í vikunni frá óánægju Carole með myndina og sakar nú leikstjórana um að hafa blekkt sig þegar þau tóku viðtöl við hana. Undir því yfirskyni að um heimildarmynd í anda Blackfish væri að ræða hafi þau náð persónulegu efni sem þau hafi síðan notað í allt öðruvísi mynd þar sem hún ræðir æsku sína, misnotkun eiginmanna sinna og mjög svo dularfullt hvarf eins þeirra sem er talinn af.

E! hefur síðan aftur á móti eftir öðrum leikstjóranna að sjálfur sé Joe Exotic hæstánægður með myndina. Sé í raun í skýjunum með frægðina sem hefur fylgt vinsældum þáttanna á Netflix þótt hann sé sjálfur bak við lás og slá.

Þótt Joe sé nú í búri eins og það er orðað og viti upp á sig sökina núna þá vorkenni kvikmyndagerðarfólkið honum. Enda sýnir hann víst iðrun.

Betra verður sjónvarpsefni sennilega ekki á vorum snarsturluðu tímum. En þó rétt að halda því til haga að á Netflix er sem getur fer hægt að finna heilbrigðari afþreyingu, klassík á borð við The Raiders of the Lost Ark og The Godfather svo eitthvað sé nefnt úr efri lögunum.

Spenser: Confidential, með Mark Whalberg, og nasistahrollurinn Overlord eru síðan ágætis kostur fyrir þá sem finnst gott að slappa af yfir rusli í snyrtilegum umbúðum. Spenser er til dæmis átakanlega léleg glæpamynd en samt er eiginlega ekki annað hægt en að líða bara varnarlaust í gegnum hana.

Íslenskar myndir eru á hlaðborði VOD-leiganna og um að gera að láta nú verða af því að kíkja á til dæmis Gullregn og Bergmál.