Þetta varð allt öðruvísi en ég bjóst við. Ég ætlaði náttúrlega alltaf að tala sjálfur. Fannst ég vera æðislegur og hélt að ég gæti fengið einhverja athygli og mokað eitthvað í svartholið,“ segir Almar Örn Hilmarsson um nýtt hlaðvarp á Spotify þar sem hann ræðir við áhugavert fólk sem hefur orðið á vegi hans.

„En svo er það ekkert þannig. Þegar þú ætlar að vera að tala við annað fólk þá verður þú náttúrlega að leyfa því að tala,“ segir Almar sem hefur meðal annars stjórnað flugfélögunum Iceland Express og Sterling en unir nú hag sínum vel í Prag þar sem hann hefur búið um árabil og er nú að hasla íslenska atvinnuleitarappinu Alfreð völl í Tékklandi.

„Hvar sem ég hef komið hef ég eignast vini í alls kyns kreðsum,“ segir Almar og vitnar í móður sína sem hefur í gegnum tíðina oft spurt af hverju hann geti ekki átt venjulega vini. „En það er eitthvað sem hefur gert það að verkum að mér gengur ágætlega að kynnast fólki frá öllum stigum samfélagsins. Ég er nú bara þannig gerður að ég dæmi ekki fólk eftir því hvaðan það kemur, hvort það á pening eða hvað það gerir,“ segir Almar sem er því ekki í vandræðum með að fylla Bönkerinn af fólki og skemmtilegum sögum.

Umkomulaus með hundinn

„Þegar þessi COVID-vitleysa byrjaði í vor þá var ég einhvern veginn umkomulaus heima og hafði ekkert að gera nema vera úti með hundinn og reyna eitthvað að spila á gítarinn með dapurlegri útkomu og þá svona einhvern veginn hugsaði ég með mér að ég yrði að fá einhvers konar útrás,“ segir Almar sem fannst hann vanta vettvang þar sem „ég get bara verið ég sjálfur og þarf hvorki að þóknast einhverjum öðrum né klæða mig í einhvern búning og þá kom þetta einhvern veginn upp.

Almar ætlaði í CO­VID-leiðindunum að fá út­rás með því að tala sjálfur út í eitt þangað til hann mundi að til þess að halda uppi sam­ræðum þarf líka að gefa við­mælandanum orðið.

Þá svona fór ég að hugsa að þetta væri nú áhugavert fólk sem ég þekki og þetta var einhvern veginn það sem mig langaði að gera,“ segir Almar sem hafði þar með fundið upphafsreitinn þótt framtíðin sé óráðin.

Allir eiga sögu

„Þetta er náttúrlega ekkert endanlegt og þetta er bara ég á þetta, ég má þetta, eins og Hannes Smárason sagði. Þannig að ég get í rauninni farið með þetta hvert sem mig langar en eins og þetta er núna er ég að reyna að fá fólk til þess að segja frá lífinu eins og það kemur af kúnni og ekkert vera að búa eitthvað til með einhverju glimmeri.

Fólk kemur þarna bara og segir mér frá lífshlaupinu og hvað það er að fást við og ég hef helvíti gaman af þessu. Það er bara þannig,“ segir Almar og bætir við að allt snúist þetta um að reyna að fá fólk til þess að opna sig.

„Það eiga allir sögu og þú þarft ekkert að vera Bubbi Morthens til þess að hún verði áhugaverð og mér hefur alltaf gengið vel að tala við fólk og fólk treystir mér,“ segir Almar og nefnir fyrsta gestinn í Bönkernum sem dæmi.

Sá heitir Kraig Casebier og er bandarískur þriðju kynslóðar rakari sem endaði í Prag eftir miklar andlegar hremmingar og rekur þar rakarastofuna American Barber in Prague þar sem Almar lætur einmitt snyrta hár sitt og voldugt skegg.

Rakaraspjall

„Ég fékk þennan rakara minn, sem ég kynntist fyrir nokkrum árum, til þess að koma og vissi að það var eitthvað í honum og hann sagði bara í þessu samtali okkar að hann hefði verið með geðhvarfasýki. Það hefði sett líf hans alveg á hvolf í Bandaríkjunum og endapunkturinn var einhvern veginn að hann flutti til Prag og verður eitthvert íkon. Hann er bara á forsíðum tímarita og hangir með fyrrverandi forseta að fá sér bjór og eitthvað svona. Þetta eru þvílík kaflaskipti í lífi þessa manns frá því að vera bara lyfjaður í tvö ár og muna ekki einu sinni eftir því hvar hann var,“ segir Almar um ameríska rakarann sem varð stjarna í Tékklandi og bætir við að ýmsir áhugaverðir og kynlegir kvistir séu væntanlegir til hans í spjall á næstunni.