„Það er nokkuð viðtekin skoðun að kvikmyndin Xanadu hafi verið hræðilegt flopp, en tónlistin í myndinni seldist hins vegar í skipsförmum og fimm lög rötuðu á topp 20 í Bandaríkjunum, þar á meðal Xanadu, sem var samstarfsverkefni Newton-John og minna átrúnaðargoða í Electric Light Orchestra,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, sem heillaðist, á besta hugsanlega aldri, af Xanadu í Laugarásbíói 1980.

Ólafur er enda einhver nafntogaðasti og stoltasti aðdáandi hljómsveitarinnar ELO á landi hér og vart þarf að deila um hversu mikilvægt framlag Jeff Lynne og félaga var myndinni sem án tónlistarinnar væri sjálfsagt löngu fallin í gleymskunnar dá.

„Ég mætti í Laugarásbíó fullur eftirvæntingar um jólaleytið 1980. Ekki var nóg með að þarna kæmu saman tónlist ELO og kynþokkafyllsta kona veraldar að mati okkar margra sem vorum að skríða inn á táningsárin og höfðum séð Grease tveimur árum fyrr, heldur var þetta fyrsta bíómyndin sem var sýnd á Íslandi í Dolby Stereo. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum – lokaatriðið með titillaginu er ógleymanlegt og mér fannst strætó númer fjögur svífa á leiðinni aftur vestur í bæ. Það er svo kannski ögn kaldhæðnislegt að Xanadu er eina lag ELO sem hefur náð toppsætinu á breska vinsældalistanum – eflaust hefur dívueffekt Oliviu Newton John átt sinn þátt í því.“

Olivia hamraði klístrað járnið meðan það var heitt í hlutverki músunnar Kira í Xanadu tveimur árum eftir að Grease gerði allt vitlaust.
Fréttablaðið/Samsett

Vikan hafði eftir Grétari Hjartarsyni, forstjóra Laugarásbíós, 1980 að hann hafi sagt að þetta gengi ekki eftir að hafa horft á Xanadu í fyrsta skipti, í mónó. Því var ákveðið að setja upp Dolby-kerfi í kvikmyndahúsinu þannig að íslenskir áhorfendur fengu að njóta Xanadu í víðómi úr tólf hátölurum sem dreifðust víða um bíósalinn.

Kerfið var vitaskuld komið til að vera þannig að segja má að Olivia Newton-John og Xanadu hafi rutt nútímanum leið inn í stóra sal Laugarásbíós til þess að tónlist ELO fengi notið sín til fullnustu.