Menningar­skólinn Litla systir, sem er teymi skipað tíu ung­mennum á aldrinum 13-18 ára, tók yfir Iðnó í þessari viku í til­efni Reykja­vík Dance Festi­val. Litla systir er hugar­fóstur dans­höfundarins Ás­rúnar Magnús­dóttur en með henni í verk­efninu eru Anna Margrét Ólafs­dóttir og Marta Á­ka­dóttir.

„Þetta heitir Litla systir af því í raun er þetta litla systir Reykja­vík Dance Festi­val. List­rænu stjórn­endurnir, Pétur Ár­manns­son og Brogan Davi­son, vildu halda á­fram að vinna með ungu fólki og ung­lingum en það er eitt­hvað sem ég hef verið að gera þannig við sam­einuðum krafta okkar og stofnuðum þennan „skóla“ sem Litla systir er,“ segir Ás­rún.

Litla systir sýndi verkið Feminískt reif eftir Önnu Kolfinnu Kuran í Iðnó síðasta miðvikudag.
Mynd/Owen Fiene

Fram­úr­stefnu­legur skóli

Litla systir er fram­úr­stefnu­legur og ó­hefð­bundinn skóli fyrir ungt fólk sem vill upp­götva heiminn í gegnum listir og aktív­isma. Nem­endurnir fá að móta námið sjálf og velja sína eigin kennara sem hitta þau og segja frá sínu starfi.

„Við höfum fengið alls konar fólk inn. Til dæmis Andrean Sigur­geirs­son, sem er dansari hjá Ís­lenska dans­flokknum og mikill aktív­isti, Jón Gnarr, DJ Dóru Júlíu, Perlu Gísla­dóttur um­hverfisaktív­ista, fólk frá And­rými og Svika­skáld. Þetta er alls konar, ekki bara sviðs­listir eða dans,“ segir Ás­rún.

Undan­farna viku hafa með­limir Litlu systur staðið fyrir um­fangs­mikilli dag­skrá í Iðnó á Reykja­vík Dance Festi­val sem nær há­punkti sínum nú á laugar­dag.

„Það var verk á mið­viku­dag sem heitir Feminískt reif eftir Önnu Kol­finnu Kuran, það er verk sem þau fram­leiddu og skipu­lögðu sjálf. Síðan vorum við með vinnu­smiðjur í vikunni með lista­mönnum sem þau vildu fá. Það var til dæmis leir­kera­gerð frá FLÆÐI og tón­smíða­nám­skeið með stelpum úr hljóm­sveitinni Gróu,“ segir Ás­rún.

Með­limir Litlu systur eru mjög þenkjandi ungt fólk sem lætur sig mál­efni líðandi stundar varða, þannig að það er mjög gaman að tala við þau.

Þenkjandi ungt fólk

Í dag, laugar­dag, verður svo há­tíðar­fundur Litlu systur haldinn í Iðnó á milli 2 og 4. Fundurinn er opinn öllum þeim sem vilja kynnast starf­semi Litlu systur, full­orðnum, börnum og ung­lingum.

„Þar er fólki boðið að koma og kynnast Litlu systur og hvað þau standa fyrir. Með­limir Litlu systur eru mjög þenkjandi ungt fólk sem lætur sig mál­efni líðandi stundar varða, þannig að það er mjög gaman að tala við þau. Þau hafa hvert og eitt valið sér um­fjöllunar­efni sem þau ætla að tala um.“

Ás­rún hvetur ungt fólk sem hefur á­huga á að taka þátt í starf­semi Litlu systur til að mæta, sem og full­orðna.

„Ég vinn oft með ung­lingum og full­orðið fólk er stundum að segja mér að það sé hrætt við ung­linga. Þannig að ég vil skora á fólk að horfast í augu við óttann og mæta. Svo er þetta náttúr­lega bara líka mjög gaman fyrir aðra ung­linga að koma og setjast niður og spjalla,“ segir hún.

Meðlimir Litlu systur eru tíu ungmenni á aldrinum 13-18 ára.
Mynd/Owen Fiene

Hver sem er getur sótt um

Geta allir sem eru á aldrinum 13 til 18 ára verið með í Litlu systur?

„Já, hver sem er getur sótt um að vera með. Það er hægt að finna mig á Insta­gram, hringja í mig, senda mér tölvu­póst eða hvað sem er og vera með.“

Hvað er svo næst á döfinni hjá Litlu systur?

„Við ætlum að fara í smá um­hverfis­verndar­pælingar, setjast niður og pæla í því. Það er einn fundur fyrir jól og svo er bara frí. Síðan ætlum við bara að halda á­fram að gera það sem við höfum verið að gera. Ekki fram­leiða, heldur bara að vinna fyrir okkur. Svo viljum við komast til út­landa og finna ein­hverja sam­starfs­aðila er­lendis. Þannig að það er margt í gangi.“

Ás­rún Magnús­dóttir hefur unnið mikið með ung­lingum í sínu starfi, til að mynda í sýningunum grrrrrls, Teena­ge Son­g­book of Love and Sex og Hlustunar­partý. Spurð hvort henni finnist skemmti­legra að vinna með ung­lingum en full­orðnum segir hún:

„Nei, mér finnst það ekkert endi­lega skemmti­legra en mér finnst það mjög skemmti­legt. Ég er bara mjög for­vitin um fólk þannig að mér finnst gaman að vinna með alls konar fólki. Það svona sem drífur mig svo­lítið á­fram er hverjum vil ég kynnast. Ég hef ó­trú­lega gaman af að vinna með ungu fólki en ég tek það ekkert endi­lega fram yfir full­orðna, það eru bara allir góðir á sinn hátt.“