Una Dögg Guðmundsdóttir er ein þeirra sem elska að taka á móti saumaklúbbssystrum sínum og vinkonum heim og bjóða upp á sælkerarétti sem gleðja bæði auga og munn. Una Dögg starfar sem markaðsfulltrúi hjá Heimkaupum, nýtur sín vel þar í starfi og fær líka að njóta sín í matargerðinni þar.

Besta brokkolísalat í heimi

„Það er skemmtilegt starf sem unnið er hjá Heimkaupum en þar kem ég mest að efnissköpun og sé um samfélagsmiðla fyrirtækisins,“ segir Una Dögg. Einnig er Una Dögg að þróa uppskriftir og kemur með hugmyndir að matargerð sem léttir fólki lífið. „Ég á þrjú börn, þau Alexöndru, Andreu og Þór, sem veita mér gjarnan innblástur í matargerðinni. Þegar haustið gengur í garð skipti ég alveg um gír í matargerð, allur grillmatur er settur til hliðar og ekta heimilismatur fær að taka við. Með ekta heimilismat á ég við lifur með kartöflumús, grjónagraut og slátur sem og hægeldað sunnudagslambalæri.

Mér finnst svo notalegt þegar fer að hausta, kertaljósin fá að njóta sín aftur og það sem mér finnst mjög notalegt er að saumaklúbbarnir fara af stað aftur, vinkonuhittingar,“ segir Una Dögg og deilir hér með okkur sínum fullkomnustu haustréttum sem er tilvalið að skella í þegar fólki langar að eiga notalega stund og njóta veitinga.

„Granateplakakan er einstakleg einföld og góð, haustfílingur í henni, kanilkex og epli, einstaklega notaleg. Svo er það brokkolísalat sem slær alltaf í gegn sem mér finnst vera besta brokkolísalat í heimi. Þetta salat hefur mamma mín oft gert í gegnum tíðina fyrir veislur. Það er alltaf jafn vinsælt og svakalega bragðgott. Best er að gera salatið daginn áður en það er borið fram. Það er fullkomið sem meðlæti með hverju sem er eða hreinlega ofan á brauð.“ Einnig finnst Unu Dögg gott að bjóða upp á heitan brieost með hunangi og hnetum og baka jafnvel tómata í ofni og bera fram samhliða ostinum.

Brokkolísalat með góðu brauði og bakaður brie með hnetum og hunangi. Hvað er betra?

Brjálað brokkolísalat

1 brokkolíhaus

1 rauðlaukur

1 bréf beikonstrimlar

1 pakki furuhnetur

3 msk. majónes

3-4 dropar balsamedik

Byrjið á að saxa brokkolíið smátt. Ristið furuhneturnar á pönnu. Saxið rauðlaukinn og steikið á pönnu með beikonstrimlunum. Hrærið öllu saman í skál ásamt majónesinu og balsamedikinu. Geymið í nokkrar klukkustundir í kæli og berið fram með snittubrauði eða góðu kexi, sem meðlæti með grillmat eða nánast hverju sem er.

Granateplakakan er einstakleg einföld og góð, haustfílingur í henni, kanilkex og epli.

Granateplakaka

5 stk. Jonagold-epli

1 peli rjómi

1 pakki Lu-kanilkex

1-2 stk. granatepli

Byrjið á því að mylja Lu-kanilkex niður í form. Afhýðið eplin og rífið þau niður með rifjárni og leggið yfir kexmylsnuna. Þeytið rjóma og leggið yfir eplin. Hreinsið granateplakjarnana, rauðu berin, úr kjarna granateplanna og stráið þeim yfir rjómann. Geymist í kæli yfir nóttu eða í hið minnsta 4-5 klukkustundir til þess að kexið nái að blotna vel