Við erum alltaf að átta okkur betur og betur á því hversu mikilvægur góður svefn er. Það er ekkert að því að leggja sig á daginn, ef þú fylgir þessum þremur reglum.

Veldu hljóðlátan, kaldan, myrkan og þægilegan stað

Ef þú mögulega getur. Ef þú aftur á móti ert ekki í aðstöðu til að velja þér slíkan stað þá er til lausn. Ef of mikill hávaði er þar sem þú ætlar að leggja þig má finna róandi bakgrunnshljóð á youtube með því að leita uppi white noise eða pink noise. Ef ef bjart er í kringum þig er gott að nota augngrímu. Að hafa hitastig herbergisins í lægri kantinum er einnig mikilvægt. Rannsóknir sýna að lægri líkamshiti hjálpar til við djúpan og ótruflaðan svefn svo opnaðu gluggann og farðu undir sæng.

Stilltu klukkuna á hálftíma og sofnaðu í sirka 20 mínútur.

Þér þykir þetta kannski fullstuttur lúr en þessi regla er virkilega mikilvæg. Þegar þú leggur þig viltu ekki ná yfir á dýpri svefnstig. Þegar lúrinn er orðinn lengri en 20 mínútur er líklegt að svefninn fari yfir á dýpri stig og þá er ekki ólíklegt að þú vaknir slompuð/aður.

Passaðu að leggja þig fyrir klukkan tvö

Eða hafðu lúrinn alla vega eftir hádegi og ekki of nálægt kvöldmatnum. Ef þú leggur þig seinna þá riðlarðu matartímanum og tekur af nætursvefninum. Í raun er aðalatriðið þegar kemur að því að taka gagnlega lúra að passa að um sé að ræða stuttan lúr til að auka orkuna en ekki langan lúr sem staðgengil fyrir aðalatriðið: Nætursvefninn!

Best er að leggja sig á köldum, myrkum og hljóðlátum stað. Mynd/Getty