Hákon og Hafsteinn eru einnig eigendur Hildibrand hótels og Beituskúrsins í Neskaupstað sem hefur vakið mikla athygli fyrir einstaka matarupplifun í umhverfi sem á engan sinn líka. Þeir hafa verið saman í ellefu ár, giftir í tvö og búið í Neskaupstað í tíu ár.

Hvernig kom það til að þið ákváðuð að fjárfesta í þessu glæsilega húsi og gera það upp?

„Við höfum í mörg ár látið okkur dreyma um að eignast stórt heimili þar sem væri nóg pláss fyrir vinnurými og listsköpun og aðstaða til að taka á móti listafólki í lengri og styttri dvalir, með fókus á hinsegin listafólk og þá sem vinna með hinsegin tengt efni í sínum verkum. Þegar Sigfúsarhús fór í sölu í lok sumars 2020 var þar komið hið fullkomna hús undir okkur og okkar drauma.“

Eldhúsið fræga, eldhúsborðið er frá um 1880 og kemur frá Stöðvarfirði, stólarnir úr ILVA, innrétting frá IKEA.

Á þetta hús sér mikla sögu?

„Sigfúsarhús á stórmerkilega sögu og hefur verið notað undir ýmsa starfsemi í gegnum tíðina svo sem heimavist og félagsaðstöðu eldri borgara. Upphaflega var húsið reist 1894 sem kaupmannsheimili og verslun,“ segir Hákon.

Upphaflegu útliti leyft að njóta sín

Aðspurður segir Hákon að framkvæmdirnar hafi gengið mjög vel og mikil vinna hafi verið lögð í að gefa húsinu sinn upphaflega sjarma. „Framkvæmdir innandyra gengu mjög vel fyrir sig þrátt fyrir að fara þyrfti í miklar endurbætur á stórum liðum svo sem baðherbergi, eldhúsi, öllu vatni og lagnakerfi, kyndingu og stórum hluti rafmagns. Öllu sem mögulega var hægt að nýta, sem var upprunalegt, var leyft að njóta sín og endurnýtt. Mikið var lagt í að rífa sig niður í gegnum seinni tíma viðbætur og niður á hið upphaflega. Stór hluti skrautlista, gerefta og slíkra „díteila“ var löngu horfinn og þurfti að smíða upp á nýtt til að gefa húsinu upphaflega sjarmann. Næsta skref verður ytra útlit og að setja aftur upprunalega glugga og skraut á húsið.“

Sigfúsarhús í Neskaupstað, byggt 1894, nú kallað Hommahöllin. Eftir er að færa ytra byrði hússins til upprunalegs horfs. Verkið á stiganum er eftir franska listakonu, Gabriella Panarelli, sem dvaldi hjá þeim í sumar.

Eru breytingarnar ykkar hönnun, voruð þið strax komnir með mynd af því í huganum hvernig þið vilduð hafa heimili ykkar?

„Við höfðum strax nokkuð ákveðnar hugmyndir um hönnun og notkun, í ferlinu tók sumt breytingum eftir aðgengi að efni og því sem kom undan þegar farið var að rífa út. Hönnun og stíll á enga sérstaka fyrirmynd en endurspeglar okkur vel.“

Breytingarnar á húsinu gengu mjög hratt og í raun ótrúlega vel að sögn Hákonar. „Við fengum húsið afhent um miðjan september 2020 og fluttum inn í mars 2021, þetta voru því um sjö mánuðir sem fóru í framkvæmdir,“ segir Hákon og bætir því við að það hafi komið sér vel að nota tímann í þetta verkefni í Covid. „Við fengum mikla hjálp frá vinum og fjölskyldu og vorum einstaklega heppnir með iðnaðarmenn.“

Borðstofan, borðið er íslensk smíði, sófasettið er sérsmíðað í Serbíu, íslensk list eftir Karólínu, Arngrím, Ásgeir Smára. Loftið er með upprunalegu fjölunum.

Safna listgripum og málverkum

Heimilisstíll þeirra Hákonar og Hafsteins hefur heillað gesti og sérstaklega hve iðnir þeir hafa verið við að gefa gömlum hlutum nýtt líf. „Stíllinn okkar er öðruvísi og ekkert mínímalískur, mikið af gömlum munum og mublum sem við höfum safnað í gengum tíðina, blandað við list og hönnun og einstaka nýja hluti. Við viljum hafa liti og hlýleika og að allt segi einhverja sögu. Flest sem við eigum á sér einhverja sögu, er tengt manneskjum eða ferðalögum.“

Hákon og Hafsteinn eru báðir mjög listfengir. „Næstum allt okkar innbú er antík eða klassísk hönnun sem við höfum safnað, bjargað eða fengið gefna. Við erum líka báðir mikið fyrir list og söfnum alls konar listgripum og málverkum, við erum ekkert fyrir auða hvíta veggi.“

Upprunalegi veggurinn með púslu-timbri fékk að halda sér í dagstofunni. Myndir á veggjum eftir Hafstein. Tekkskápurinn var keyptur á nytjamarkaði á Norðfirði.

Draumaeldhúsið hlýlegt og grand

Eldhúsið er einstaklega vel hannað og er sannkallað draumaeldhús fyrir alla sælkera. „Við ákváðum strax að stærsti hluti af kostnaðaráætlun við endurbætur færi í að gera draumaeldhúsið. Við erum miklir matmenn og finnst gaman að halda veislur og svo eru ansi oft margir gestir hjá okkur.“

Eldhúsið er stórt með endalausu bekkjarplássi sem hentar vel þegar Hákon gerist stórtækur í bakstri og matseld. „Okkur fannst mikilvægt að eldhúsið yrði hjartað í heimilinu og að stíllinn á því væri hlýlegur en grand og hæfði svona flottri höll. Til að tengja saman eldhúsið við stofurnar var gamla búrið rifið út og gerður bar inni í borðstofu, það kom ótrúlega vel út og gerði frábært flæði í rýmin. Við fengum hana Guðbjörgu Önnu Árnadóttur til að hanna innréttinguna og uppröðunina og innréttingin er svo úr IKEA, en við kolféllum fyrir þessum lit, minnir á gamlar innréttingar eins og hefðu getað verið í upphaflegu versluninni hér í húsinu,“ segir Hákon og er ákaflega stoltur af eldhúsinu sem er hin mesta prýði.

Úr vinnustofu Hafsteins, mublur frá fjölskyldu hans, bækur og myndlist eru eftir Hafstein.

Dökkir og hlýlegir litir

Borðstofan er krúnudjásnið í húsinu, hún var einnig það rými þar sem mest af upphaflegu skrauti hafði fengið að halda sér í gegnum árin. Litirnir eru dökkir en hlýlegir og gefa henni einhvern aukinn virðuleika. „Dökkgræni liturinn tengir eldhúsið og stofuna saman, svo þegar við fórum að rífa úr loftinu komu í ljós gamlar fjalir með mörgum tónum af grænum lit og við ákváðum að leyfa þeim að njóta sín. Stíllinn er blanda af goth og mid-century, hér er hver hlutur með mikla sögu og tengingu.

Borðstofusettið er íslensk smíði og okkur áskotnaðist það úr dánarbúi á Stöðvarfirði. Við vildum hafa lítið borð í eldhúsinu til að hafa kósí fyrir okkur tvo dagsdaglega og tryggja að borðstofan yrði sannarlega notuð þegar það væru gestir í mat. Hvernig rýmin flæða gerir hana líka mjög aðgengilega og hér við sitjum daglega. Oft eru betri stofur upp á punt og bara notaðar á stórhátíðum, að okkar mati eru falleg rými til að nota og njóta.“

Barinn og tenging milli eldhúss og borðstofu. Verkið yfir borðstofuborðinu er eftir Arngrím Sigurðsson og var keypt á sama tíma og húsið.

Í betri stofunni á hver hlutur sögu og tengingu. „Sumt er fjölskyldutengt og annað eru hlutir sem við höfum keypt á antíkmörkuðum á ferðalögum, svo er líka mikið um list og handverk eftir vini okkar.“

Flestir hlutir í húsinu hafa tilfinningalegt gildi fyrir þá Hákon og Hafstein. „Við höfum flutt oft síðustu árin og þá látum við hluti frá okkur sem að við tengjum minna við. Eftir stendur að nánast allt innbúið okkar á einhverja sögu eða sál sem okkur þykir vænt um.“

Djarft og mynstrað veggfóður

Litaval og veggfóður í húsinu vekur eftirtekt og sérstaklega í herbergjum hússins.

„Við vildum hafa hlýlega og gamaldags liti og vorum búnir að velja litina þegar við byrjuðum að rífa út og það skemmtilega var að nánast allir litirnir sem við höfðum valið komu í ljós einhvers staðar í húsinu. Svo vildum við poppa upp herbergin með veggfóðri, við völdum djarft og mikið mynstrað. Við viljum hafa hlutina persónulega og öðruvísi, við fylgjum engum tískustraumum eða hönnunarstefnum. Svo verður að vera smá húmor og eitthvað ögrandi.“

Hákon er á því að fólk eigi að leyfa sér að hafa persónulegan stíl og ekki að fylgja tískunni of mikið. „Tískan fer alltaf í hringi og er endalaus eltingaleikur, persónuleg og hlýleg heimili eru sígild.“

Hin fræga Dolce & Gabbana brauðrist sem Hákon og Hafsteinn keyptu í ferðalagi á Sikiley en þaðan kemur D&G.
Upphaflegi stigin í húsinu, skreyttur af Þóru Lind mömmu Hákonar en hún gaf þeim í brúðkaupsgjöf að veggfóðra í húsið. Veggfóðrið er frá Bretlandi og gólfdúkur innfluttur frá Póllandi.
Uppáhalds heimilistækið SMEG Opera 120 cm alvöru eldavél, keypt notuð af hjónum í Kópavogi sem voru í breytingum á sama tíma og við.
Gamall skápur, fjölskyldugripur úr Hákonar ætt, langaafabróðir hans fékk skápinn í fermingargjöf. Verkin á veggnum eru eftir Hafstein.