Mig hefur langað að mála síðan ég man eftir mér og mér er lífsnauðsynlegt að mála. Ég er haldin svo mikilli sköpunargleði og hvert einasta málverk sem ég mála upplifi ég sem þroskandi ferðalag,“ segir myndlistarkonan Dóra Emilsdóttir.

Dóra hefur lagt stund á myndlist í fjörutíu ár. Hún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk meistaragráðu við Gerrit Rietveld-akademíuna í Hollandi. Verk hennar eru samspil hins óræða og hins hlutbundna; ljóðræna sem birtist á mörkum líkama og landslags, tabú þar sem allt er leyfilegt, glimmer, dúllur, bleikar blúndur og glitrandi ský.

„Mér finnst erfitt að útskýra málverk ef það er ekki augljóst fjall með sitt alkunna örnefni. Mynd hefur sitt eigið tungumál og snýst um skynjun og upplifun. Ef maður reynir að útskýra myndir um of eyðileggur maður þær. Þetta snýst um frjálst flæði og tilfinningar og með það í farangrinum fer maður af stað,“ segir Dóra.

Eitt af aðalsmerkjum hennar eru litríkar andlitsmyndir. Hún vinnur með margvísleg efni en nú mestmegnis blek og lökk.

„Ég hef alltaf málað prímadonnur og margir sem eiga þannig verk eftir mig en ég nenni ekki alltaf að gera það sama og mála líka abstrakt. Prímadonnurnar voru upphaflega hugsaðar sem sjálfsmyndir og margir segjast sjá mig í verkunum, sem er alveg rétt, en þó eru þetta konur í ýmsum birtingarmyndum. Ég reyni því ekki að mála einhverja sérstaka konu heldur skynjar áhorfandinn tjáningu og tilfinningu konunnar í myndunum,“ útskýrir Dóra.

Margslungin og litrík andlit Dóru.

Áráttutengt að mála

Dóra hefur haldið ótal einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og utan landsteinanna. Þá eru verk hennar til víðs vegar í opinberri eigu og einkaeigu fólks.

„Mér finnst mikilvægt að hafa gaman af myndlistinni og húmor fyrir henni, annars verður hún leiðinleg. Maður má ekki heldur hafa of miklar væntingar eða áhyggjur af því hvað öðrum finnst. Það er frumstæð hvöt að mála og hún er óháð markaðslögmálum. Maður verður líka að vera trúr sjálfum sér, það er eina leiðin, en svo snýst þetta líka mikið um tilviljun og heppni, og líka tísku. Stundum nær maður í gegn og stundum ekki, en ég held að flestir listamenn séu þannig að þeir geti ekki hætt. Það er áráttutengt að mála. Sumir eru svo meira bisnessfólk en aðrir en mitt málverk er í stöku upplagi og ég hef ekki enn sett þau á prent, en hver veit hvað verður. Það er góð hugmynd í sjálfu sér og gefur fleirum tækifæri á að setja íslenska list upp heima hjá sér,“ segir Dóra sem selur verk sín meðal annars á apolloart.is sem er fyrsta íslenska listagalleríið sem selur málverk á netinu.

Ein af fögrum prímadonnum Dóru.

„Þannig er nútíminn. Fólk vill geta farið á netið og skoðað málverk til kaups heima í stofu. Mér finnst það frábært og hjá Apollo art eru dýrðlegir náungar,“ segir Dóra.

„Myndlist er óvissuferð. Maður getur ekki hætt að mála, hvort sem gengur vel eða illa. Sköpunin er manni í blóð borin og getur aldrei orðið hreinræktuð bisnesshugmynd því það er aldrei á vísan að róa með hvernig gengur. Málverk er hins vegar framlenging af manni sjálfum og maður gefur allt sitt í þau. Þau eru óstöðvandi farvegur sköpunar og þess vegna gæti ég ekki auðveldlega lagt penslana frá mér.“

Fyrsta stoppið fyrir íslenska myndlist er á Apolloart.is. Þar er hægt að skoða málverk Dóru.

Margslungið abstrakt verk eftir Dóru, málað með akrýllitum.