Rákir er nýr íslenskur geisladiskur með sveit sem kallar sig Ludvig Kári Quartet. Í tilkynningu segir að á diskinum sé frumsaminn djassbræðingur, innblásinn af þoturákum í veðrahvolfi norðursins. Þarna er flogið hátt. Best að heyra í höfuðpaurnum, Ludvig Kára Forberg, tónlistarkennara á Akureyri. „Ég er alinn upp svolítið nálægt fluginu og hef áhuga á því. Er með tæknirómantík í sambandi við flugvélar og sum lagaheitin tengjast henni. Það er fastur liður í tilverunni að horfa á þoturákir,“ útskýrir hann.

Ludvig Kári kveðst hafa samið öll lögin sjö á diskinum og útsett þau. „En við félagarnir unnum þau saman. Þeir eru allir einstakir hljóðfæraleikarar og frábærir samstarfsmenn,“ tekur hann fram. Þar á hann við þá Phil Doyle sem spilar á saxófóna, Stefán Ingólfsson á bassa og Einar Scheving á trommur.

Tónlistin á diskinum var tekin upp í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri árið 2019 af Hauki Pálmasyni upptökumanni. „Svo hefur verið vinna í henni, þetta er eiginlega stúdíóplata,“ segir Kári. „Lögin sjö eru bara brot af því sem ég er búinn að semja og það eru pælingar um áframhaldandi samstarf okkar félaga og fleiri diska.“