Vinkonurnar Brynja Ólafsdóttir, Tanja Kristín Árnadóttir, Ylfa Margrét Ólafsdóttir og Helga Guðrún Önnudóttir Hrannarsdóttir ákváðu að handsauma sig inn á íslenskan tískumarkað í lokaverkefni sínu í frumkvöðlafræði á viðskiptabraut Verzlunarskóla Íslands, með umhverfisvænum handtöskum sem þær markaðssetja undir merkinu Meyatöskur.

Posted by meyatoskur on Tuesday, 13 April 2021

„Við þurftum að koma með hugmynd og vildum gera eitthvað tískutengt. Það komu alveg upp nokkrar hugmyndir en okkur þótti þessi sú allra besta og bara einhvern veginn kolféllum fyrir þessu,“ segir Helga Guðrún um lokaverkefnið, sem varð að handtöskum sem hún og skólasystur hennar hanna, sauma og selja á Facebook og Instagram.

100% vegan

„Við ákváðum að við vildum ekki gera þetta úr alvöru feldi og að ekkert lifandi væri skaðað við framleiðsluna,“ segir Helga Guðrún og bætir við að þær hafi ekki aðeins haft dýra- og umhverfisvernd að leiðarljósi heldur eigi töskurnar að henta öllum kynjum. „Þetta er alveg 100% vegan þannig að þetta hentar öllum og er ekki heftandi fyrir neinn og er fyrir öll kyn og allt þannig.“

Aðspurð segir Helga Guðrún að þeim hafi reynst miklu auðveldara en þær bjuggust við að finna rétta feldinn fyrir töskurnar. „Það var reyndar alls ekki mjög flókið. Við höfðum bara samband við nokkrar efnisverslanir og heildsölur og fundum litinn sem við vildum og allt þannig. Bara fallegan gervifeld á mjög góðu verði.“

Lærðu að sauma

Stelpurnar hönnuðu töskuna sjálfar og eru búnar að vera að sauma lagerinn í höndunum þótt þær hafi lítið kunnað fyrir sér í þeim efnum fyrir mánuði síðan.

Stelpurnar létu fagurfræðina ráða og slepptu joðinu úr lógóinu sínu.

„Við höfðum nú í rauninni bara enga reynslu af því að sauma en höfðum samband við stelpu sem kann þetta og á saumavél og allt þannig. Hún leyfði okkur að nota aðstöðuna sína og kenndi okkur á þetta í rauninni. Þannig að það var alveg frábært,“ segir Helga Guðrún.

„Við erum bara búnar að vera að sauma þetta allt síðasta mánuðinn. Þetta er búið að taka alveg ágætis tíma en er alveg 100% þess virði og við erum sko alveg tilbúnar til að leggja meiri vinnu í þetta. Þetta er rosalega gaman þótt þetta sé rosalega mikil vinna,“ heldur Helga Guðrún áfram og telur lagerstöðuna nokkuð góða. „Já, já, já. Algerlega. Við eigum smá lager sem ætti að anna eftirspurn.“

Fara hljóðlega af stað

Helga Guðrún segir hugmyndina að töskunni meðal annars hafa orðið til á Instagram-vafri þeirra og þær telji hana eiga fullt erindi þar sem þær hafi í raun ekki séð neitt svipað henni á Íslandi.

„Þetta er svona taska í minni kantinum og meira hugsuð bara fyrir aðaldótið; veski, síma, lykla og svoleiðis. Við hugsum þetta ekkert fyrir bækur, tölvu eða eitthvað þannig,“ segir Helga Guðrún og segir töskuna til dæmis henta vel þegar farið er út að borða eða önnur tilefni þar sem minni taska kemur sér vel.

„Þetta er búið að fara svolítið hægt af stað hjá okkur en við erum algjörlega að fara að setja markaðsherferð af stað þar sem við ætlum bara að gera allt sem við getum til þess að sem flestir sjái þetta.“

Sleppa j-inu

Helga Guðrún segir að þær fjórar spóki sig að sjálfsögðu með eigin framleiðslu en taskan sé ekki áberandi á göngum Verzló. „Ekki strax. Við eigum allar tösku en það er svo stutt síðan salan hófst. Við erum bara búnar að vera á fullu að sauma og svoleiðis en við vonumst náttúrlega bara alveg 100% til að fara að sjá þetta gerast á næstu vikum.“

Þegar talið berst að vörumerkinu sjálfu, Meyatöskur, útskýrir Helga Guðrún fjarveru bókstafsins j. „Við vildum að nafnið byrjaði á M og það var bara eitthvað sem við vorum staðráðnar í.

Svo horfðum við svolítið í stjörnumerkin og þá náttúrlega kemur meyja inn en við ákváðum að sleppa j-inu til þess að þetta væri ekki tengt beint við stjörnumerkið. Okkur fannst það líka stíliserað flottara ef við slepptum joðinu.

Stelpurnar selja töskurnar á 6.990 krónur og taka við pöntunum í einkaskilaboðum á @meyatoskur á Instagram og Facebook-síðu Meyatöskur.