Rífandi stemning var í gærkvöldi á Klaustur Bar þegar Borg brugghús svipti hulunni af nýjasta jólabjórnum Skyld'ða vera stólahljóð, en Klaustur tríóið með tónlistarmanninn Böðvar Reynisson, eða Bödda, í broddi fylkingar mætti og frumflutti nýtt jólalag sem nefnt er í höfuðið á bjórnum en textinn er sunginn undir laginu Jólahjól með Sniglabandinu. Lagið vakti mikla lukku meðal gesta á barnum.

Í Klausturstríóinu eru ásamt Bödda, þeir Hjörtur Stephensen og Valdimar Olgeirsson og spila þeir notalega jazz standarda alla föstudaga á Klaustur Bar milli 18:00 og 20:00. 

Í samtali við Fréttablaðið segir Böddi að nokkuð auðvelt hafi verið að semja textann eftir fréttir síðustu daga. Líkt og flestir vita vísar nafn lagsins í ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um að meint selahljóð sem gerð voru til þess að níða Freyju Haraldsdóttir hefðu verið hljóð í stóli en Sigmundur bakkaði síðar með þá útskýringu og talaði um að þar væri jafn vel á ferðinni reiðhjólabremsa. 

„Við fengum meldingu um að koma að spila í gærkvöldi frá framkvæmdastjóranum á Klaustur. Hún sagði að það væri verið að kynna þennan bjór, Skyld'ða vera stólahljóð, og ég settist bara niður og smellti í svona djóktexta við þetta tilefni. 

Það er svona þegar að fréttir samtímans veita manni listrænan innblástur að þá kemur þetta auðveldlega. Bjórinn heitir skemmtilegu nafni og augljós tilvísun í Sniglabandstextann svo eftirleikurinn varð nokkuð auðveldur.“

Þið ætlið ekkert að gefa lagið út?

„Það var ekki planið en ætli þetta hafi ekki verið hljóðritað á Klaustri í gær. Það hefur allavega gerst áður,“ segir Böðvar léttur í bragði. „Nei, hver veit, kannski við gerum eitthvað við þetta, það er aldrei að vita.“

Stólahljóð:

Undir stólahljóða stól var tappi
Undir stólahljóða stól 
átti að vera hljóðdempandi tappi
en svo var ekki 
Og Gunn‘og Simmi föttuð‘ekki neitt

Skyld‘ða vera stólahljóð?
Skyld‘etta vera stólahljóð?
Skyld‘ða vera stólahljóð?
Skyld‘etta vera stólahljóð?

Inn‘á klaustri heyrðist væl, í sel 
eða reiðhjóla bremsu skæl, ég heyrði það vel
Þau litu útum gráan gluggan 
og enginn selur og ekkert hjól að sjá?
hvað var þetta þá?

Skyld‘ða vera stólahljóð?
Skyld‘etta vera stólahljóð?
Skyld‘ða vera stólahljóð?
Skyld‘etta vera stólahljóð?

Gunn‘og Simmi segja og vilj‘ekki þegja

Skyldi það vera stólahljóð?
Skyldetta vera stólahljóð?
Eða kannski hjólabremsuhljóð?
Skyld‘etta vera stólahljóð?

Undir stólahljóða stól var tappi
Undir stólahljóða stól 
átti að vera hljóðdempandi tappi
en svo var ekki 
Og Gunn‘og Simmi föttuð‘ekki baun
í þessu væli

(2x viðlag)

Texti: Böðvar Reynisson
samið við lag Skúla Gautasonar 
Upprunalegur flytjandi: Sniglabandið