Fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason og eiginkona hans kokkurinn Helga Gabríela Sigurðardóttir langaði svo mikið að annað barnið þeirra yrði stúlka að Frosti tók sig til og hringdi í Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, og spurði hvort það væri eitthvað sem hann gæti gert til að auka líkurnar á að eignast stúlku.

Fyrir eiga þau hjónin son og eiga nú von á öðrum syni. Frosti ljóstraði upp um símtalið í þættinum Harmageddon í morgun þar sem hann fór yfir fréttir vikunnar ásamt Margréti Hugrúnu Gústavsdóttur og Gunnari Sigurðarsyni.

Undarlegt símtal

„Við vorum að reyna að fá hitt því við vorum búin að fá einn strák,“ sagði Frosti. Tók hann svo fram að þau hjónin hefðu reynt nokkur húsráð til að reyna að eignast stúlku. „Ég skal segja frá því opinberlega, ég hélt að ég myndi aldrei gera það, en ég hringdi í Kára Stefánsson. Og ég sagði við hann: „Þetta er mjög undarlegt símtal, en við konan erum að fara að búa til annað barn, en eru einhverjar leiðir til að auka líkurnar á að fá stelpu eða strák?“

Frosti fór svo að herma eftir talsmáta Kára. „Þá sagði Kári við mig: „Veistu það Frosti, það er ekki laust við að mér þyki örlítið vænna um þig fyrir að spyrja mig þessarar spurningar. En það er nákvæmlega ekkert sem þú getur gert í þessu. Þetta er hundrað prósent náttúran sem að ræður þessu. Þú átt engan séns á að hafa áhrif á þetta.“

Mjög sátt við annan strák

Gunnar sagði Frosta að hann dáist að honum fyrir að spyrja. „Þið eruð eitthvað lúbrikera hvort annað og þú segir: „Bíddu, ég ætla að hringja í Kára“. Þetta er náttúrulega geggjuð saga.“

Frosti sagði að þau hjónin væru mjög sátt við að eignast annan strák. „Ég varð að ganga úr skugga um að ef það væri eitthvað sem ég gæti gert.“

Hér má hlusta á umræðurnar í Harmageddon í morgun. Umræða um barneignir hefst á 17 mínútu.