Warmland er hjómsveit skipuð reynsluboltum úr íslensku tónlistarlífi. Hún spilaði fyrir fullu húsi í Iðnó í gær á Iceland Airwaves og endurtekur leikinn á Hard Rock Cafe klukkan 20:00 í kvöld. Arnar Guðjónsson fyrrum stofnmeðlimur Leaves og Hrafn Thoroddsen úr Ensími stofnuðu Warmland eftir að hafa verið að túra með Barða í Bang Gang í Kína.

„Við kynntumst þegar við vorum að túra með Barða og vorum alltaf að fara til Kína. Svo erum við búnir að vera saman með stúdíó í nokkur ár. Við prófuðum loks að spila saman og það bara small!“ segir Arnar.

„Ég vinn þar á daginn og Hrafn kemur svo á kvöldin svo hittumst við og gerum tónlist saman.“ Arnar er einnig einn stórtækasti pródúsent landsins og pródúseraði plöturnar Kaleo, Between Mountains, Dream Wife svo fátt eitt sé nefnt. „Ég saknaði þess mikið að vera að spila á tónleikum og er mjög ánægðu að ég sé að gera það. Það er mjög gaman að blanda þessu“

Vekja eftirtekt erlendis

Warmland spilaði nýverið í London og mun spila í Berlín í næstu viku. Í janúar spilar hljómsveitin svo á Eurosonic í Groeningen þar sem rokktónlist er gert hátt undir höfði á fjögurra daga tónleikahátíð sem hátt í 20.000 manns sækja ár hvert. „Við erum með rosa flott slott á föstudeginum þar,“ segir Arnar sem fagnar því að hljómsveitin njóti sífellt vaxandi athygli.

„Við spilum á Hard Rock í kvöld og svo off venue á Slippbarnum á laugardaginn, þannig að það er tækifæri fyrir þá sem eru ekki með armband til að sjá okkur.“ Trommarinn Addi Gísla og Guðni Finns, bassaleikari, koma fram með Warmland svo búast má við þrusuþéttum performans.