Margrét Jónsdóttir listmálari heillaðist af franskri menningu þegar hún dvaldi í Kjarvalsstofu, íbúð fyrir listamenn, í París árið 1988. Síðan þá hefur hún dvalið í Frakklandi meira og minna.

Margrét keypti 300 ára gamalt hús í Les Coevrons í norðvesturhluta Frakklands árið 2003. Þar hefur hún dvalið, unnið á vinnustofu sinni og verið með vatnslitanámskeið fyrir Íslendinga í þessu fallega umhverfi. Eftir hrunið fór Margrét að leigja húsið út til að mæta kostnaði við viðgerðir á þessu gamla, fallega húsi. Líf Margrétar tók u-beygju fyrir rúmu ári þegar hún slasaðist á fæti eftir að hafa farið í hnéaðgerð. Endurhæfing hefur tekið langan tíma og Margrét sat föst í Frakklandi vegna Covid-útgöngubanns og þess að geta ekki ferðast ein. Ekkert beint flug var á milli landanna. Ættingjar og vinir komust ekki heldur til Frakklands til að aðstoða hana, svo þetta var erfiður tími. Hún hefur því ekki komist heim til Íslands í á annað ár, en horfir nú glöð fram á íslensk jól.

Margrét hefur starfað sem myndlistarmaður í hálfa öld og lengi stundað kennslu í grunn- og framhaldsskólum auk Myndlistarskóla Kópavogs. Hún hefur haldið á fimmta tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hér á landi sem erlendis. Venjulega hefur hún dvalið í franska kotinu sínu í jóla- og sumarfríum en vegna veikinda hefur dvölin orðið samfelld og Margrét hætt allri kennslu á Íslandi. Hún er þó hvergi hætt að mála og nýtir tímann vel til þess að vinna.

Vinnustofa Margrétar í 300 ára gömlu húsi hennar í Frakklandi.

Algjört myrkur

Þegar listakonan er spurð um frönsk jól segir hún þau hafa verið sérstök á síðasta ári vegna Covid enda mest allt lokað. „Nágranni minn fór til Mónakó yfir jólin en landið var opið Frökkum, jafnt hótel, veitingastaðir og spilavíti, sem fólki fannst vera mikil hvíld frá Covid-lokunum,“ segir hún. Frakkar eru mikil matarþjóð og spara ekkert við sig í mat og drykk um jólin. Þeir skreyta ekki heimilin með ljósaseríum þar sem rafmagnið er dýrt, en bæjarfélög sjá um skreytingar og síðan eru jólamarkaðir í öllum bæjum og borgum. „Eftir kl. 10 á kvöldin er slökkt á öllum götuljósum og margir setja hlerana fyrir gluggana, myrkrið er algjört í minni sveit,“ segir hún.

„Matarmarkaðir eru hér árið um kring en margvíslegir jólamarkaðir spretta upp í desember,“ segir Margrét. „Í Le Mans, sem er í 45 mínútna akstri frá mér, er sett upp jólaþorp þar sem boðið er upp á alls kyns uppákomur. Margir Frakkar fara út að borða á aðfangadagskvöld og þá situr gjarnan öll fjölskyldan saman yfir hlaðborði. Einnig eru fjölbreyttir tónleikar í boði sem fólk sækir,“ segir Margrét, en hún er þrjár klukkustundir að aka til Parísar en klukkustund með lest frá Le Mans.

Jólalegt í stofunni og krossar skreyta veggina.
Jólakakan sem Margrét minnist á í greininni og er á öllum borðum Frakka um jólin. Kakan lítur úr eins og trélurkur. Hún fæst nú í öllum frönskum búðum.

Fjölskylda og vinir borða saman

„Það eru mjög fastar venjur hjá Frökkum um jólin. Þeir eru með marga forrétti, aðalrétti, osta og eftirrétti. Svo drekka þeir góð vín með. Í forrétt er yfirleitt góður fiskur, til dæmis lax, ostrur, gæsa- eða andakæfa, síðan eru hvítar pylsur, kalkúnn er oft á borðum á aðfangadag, kjúklingur, önd eða akurhæna, þá koma ostar og loks er hefðbundin kaka sem lítur út eins og trélurkur. Það eru allar verslanir fullar af þessari köku fyrir jólin. Kampavín er venjulega fordrykkur og rautt og hvítt með matnum. Frakkar drekka alltaf vín með mat. Matartíminn tekur minnst þrjá klukkutíma. Öll stórfjölskyldan borðar saman bæði á aðfangadag og jóladag, en þá er algengt að vinir bætist í hópinn og það hefur alltaf heillað mig.

„Boudin blanch, hvítar pylsur, eru einn af jólaréttunum í Frakklandi, og er hafður á undan millirétti á undan aðalrétti. Fyrir jólin er hægt að fá pylsurnar með trufflum, sveppum eða bragðbættar með púrtvíni. Ég hef haft pylsurnar sem aðalrétt á jólum. Þeir sem hafa verið á námskeiði hjá mér í Frakklandi þekkja flestir réttinn. Pylsurnar eru steiktar og bornar fram með steiktum eplum og lauk. Ég geri þetta yfirleitt aðeins öðruvísi því ég steiki eplin og laukinn upp úr karríi og helli vínediki yfir og leyfi þessu að malla aðeins með pylsunum,“ segir Margrét.

Foie gras uppáhalds

„Einn af mínum uppáhaldsréttum er foie gras, steikt gæsa- eða andalifur. Þetta er stór, hrá lifur sem er steikt eða bökuð. Lifrin er sett hrá á heita pönnu og brúnuð á báðum hliðum og söltuð. Síðan steiki ég eplabita upp úr fitunni og helli smávegis af koníaki eða púrtvíni yfir eplin og hef með lifrinni. Margir hafa ristað brauð með þessu en baguette er fínt til að hreinsa sósuna af diskinum, sem er auðvitað guðdómleg. Með þessum rétti drekk ég kampavín,“ segir Margrét, sem kann svo sannarlega að njóta þess besta í Frakklandi.

„Ég er alveg hætt að skreyta mikið fyrir jólin,“ segir hún. „Það er nóg fyrir mig að hafa falleg blóm í kringum mig, góða tónlist, kerti og ljúffengan mat,“ bætir hún við. Margrét býr ein og segir að jólin séu alltaf öðruvísi hjá þeim sem búa einir en hjá fjölskyldufólki. „Jólamaturinn er bara eitthvað sem mig langar í, en ekki samkvæmt hefðum. Það þarf þó alltaf að vera góður matur, gott vín og konfekt, en Frakkar eru sérfræðingar í súkkulaðigerð,“ segir hún.

Beef Bourguignon. Þegar þessi réttur er eldaður ilmar allt húsið, að sögn Margrétar.

Með sýningu á Íslandi

Margrét segir að það hafi alltaf verið dásamleg hvíld frá Íslandi að dvelja í Frakklandi, minni streita, gott að vinna í kyrrðinni, veðrið betra og miklu ódýrara að lifa. „Ég eiginlega flýði dýrtíðina heima,“ segir hún. „Það verður hins vegar gaman að koma heim núna eftir svona langan tíma í Frakklandi,“ segir hún. „Ég er að fara að sýna í SÍM-salnum í desember með listamanninum Örnu Gná Gunnarsdóttur sem býr í Strassborg en vinnur að list sinni á Íslandi og í Frakklandi. Við erum tengdar á margan hátt, blóðböndum, báðar með sterk tengsl við Frakkland og þrátt fyrir að vinna ekki í sömu miðla, þá erum við oft að vinna með sömu viðfangsefni, líkamann, líkamsvessa, feminískar pælingar, handverk og viðhorf. Einnig tilraunakennda heilun og innhverfa íhugun. Síðasta sýningin okkar var í Grafíksalnum 2017 og nefndist hún Blóðbönd.“

Húsið ilmar við matargerð

Margrét ætlar að gefa lesendum uppskrift af hefðbundnum, klassískum, frönskum rétti, Beef Bourguignon. „Ég fer ekkert endilega eftir hefðum og því hef ég oft Beef Bourguignon um jólin í Frakklandi, en potturinn dugar vel og er mun ódýrara fæði en ostarnir. Ég steiki fyrst kjötið og elda síðan í ofni í átta tíma með kartöflum og öllu öðru. Það fer eftir hvað ég er að gera þann daginn en húsið ilmar dásamlega,“ segir listakonan og hér er rétturinn.

Beef Bourguignon

Hér er grunnur sem hægt er að leika sér með, en ég fer aldrei nákvæmlega eftir uppskrift og ég bæti alltaf kartöflum við sem fá að malla með kjötinu.

1 kg nautakjöt

150 g beikon

4 gulrætur

1 flaska af rauðvíni

1 laukur

smá hveiti

1 timiankvistur

1 lárviðarlauf

2 eða 3 negulnaglar

1 hvítlauksgeiri

börkur af einni appelsínu

salt og pipar

Skerið kjötið í bita og setjið í stóra skál ásamt skornum gulrótum og lauk, kryddjurtum, kryddi, hvítlauk og appelsínuberki.

Hellið rauðvíni yfir og plastfilmu yfir skálina og látið marínerast í 12 til 24 klukkustundir á köldum stað.

Vínið er skilið frá kjötinu og grænmetinu. Hellið ögn af ólífuolíu í pott og steikið kjötið. Látið brúnast á hvorri hlið og saltið. Bætið við beikoni og grænmeti og látið malla í 5 mínútur. Stráið hveitinu yfir og látið malla í 2-3 mínútur. Bætið víninu úr maríneríngunni út í og látið suðuna koma upp og soðið í um 5 mínútur til að áfengið gufi upp. Lok sett á pottinn og soðið í 2 til 2 1/2 tíma við meðalhita.

Foie gras og hvítar pylsur eru á borðum Frakka á aðfangadag.