Metþátttaka er á World Class stúdíó-námskeiði sem um 70 barþjónar frá öllum landshornum sækja og líkja mætti við MBA-nám í starfsgreininni og þar verða þjónarnir dæmdir af verkum sínum sem að sjálfsögðu eru drykkir sem þeir blanda í anda ákveðinna þema.
Mikil áhersla er lögð á sjálfbærni, gæði og upplifun og stigagjöf eftir því. Í vor keppa síðan tíu stigahæstu barþjónarnir í lokakeppni og sigurvegarinn mun síðan mæta þeim bestu frá öðrum löndum í alþjóðlegri World Class-keppni.
„Ísland hefur tekið þátt fjórum sinnum og þrjú ár eru liðin síðan síðast. Ísland mun framvegis taka þátt annað hvert ár þannig að það er mikil spenna að hefja leika aftur,“ segir Sóley Kristjánsdóttir, vörumerkjastjóri áfengra drykkja hjá Ölgerðinni.
World Class-kokteilbarir verða svo með World Class-drykkjarseðla eftir hverja umferð í minnst tvær vikur svo fólk geti komið, smakkað og fræðst um hugmyndina á bak við drykkina.
„Við hvetjum fólk til að fylgjast með á heimasíðunni drekkumbetur.is/world-class eða Facebook og Instagram undir World Class Drykkir þar sem þátttakendur verða kynntir í næstu viku,“ segir Sóley.
Fyrsta stúdíóið, eins og það er kallað, fer fram í dag á Héðni Kitchen&bar en fresta þurfti námskeiðinu um tvo daga þar sem öllu flugi var aflýst í aftakaveðri á mánudag.
„Dennis Tamse frá Ketel One vodka í Hollandi kennir námskeiðið þar sem farið er yfir framleiðsluferlið og smakkað á mismunandi vodkategundum með áherslu á hvernig barþjónarnir geti tengst nærumhverfi sínu. Til dæmis með því að sækja hráefni sitt beint frá býli.
Íslendingar eru frá fornu fari mikil vodkaþjóð og vodkinn er enn langmest selda brennda vínið í Vínbúðum með nær þriðjung sterkvínssölunnar. Viskí er í öðru sæti og gin í því þriðja,“ segir Sóley og bætir við að Tamse sé aðeins fyrsta stórstjarnan úr drykkjaheiminum sem komi til að fræða og dæma og lyfta ránni enn hærra.
„Við viljum að fólk hugsi um drykki líkt og það hugsar um mat. World Class er stærsta og virtasta barþjónakeppnin þar sem kanónur koma hingað til lands og kenna það nýjasta í kokteilheiminum og World Class Cocktail Festival mun ekki fara fram hjá neinum í vor,“ segir hún.
Hlynur Björnsson er framkvæmdastjóri keppninnar en hann bætir því við að það sé mikið tilhlökkunarefni að senda keppanda alla leið til Sao Paulo í Brasilíu þar sem keppnin fer fram. „Það er frábært að halda keppnina á ný en færni barþjóna er mikil á Íslandi og við stefnum á topp tíu í lokakeppninni í Brasilíu.“