Frænkurnar Rebekka Rut Marinósdóttir og Aldís Björk Ingadóttir stjórna hlaðvarpsþáttunum Samsæri sem hefja göngu sína í dag á podify.‌is. Í þeim taka þær fyrir heimsþekkt samsæri og kryfja til mergjar.

Rebekka var að útskrifast út námi í almannatengslum í London.

„Planið var að vera áfram í London en vegna COVID kom ég heim og hef nýtt tímann í verktakavinnu. Allar vinkonur mínar eru að kaupa íbúðir og eignast börn þannig að ég hugsaði; frábær tími fyrir mig að detta í samsæriskenningar,“ segir Rebekka.

„Ég er enn í námi sjálf en hef unnið mikið á samfélagsmiðlum á síðustu árum og mig hefur alltaf langað að stofna hlaðvarpsþátt. Ég ákvað að drífa bara í því enda er fólkið í kringum mig komið með leið á að hlusta á mig alla daga,“ segir Aldís og hlær.

Jafna út orkuna

Hafið þið lengi haft áhuga á samsæriskenningum?

„Já og nei, ég hef alltaf haft meiri áhuga á „true crime“ og heimildarmyndum, en ég var að skrifa BA-ritgerðina mína í byrjun 2020 og notaði allar afsakanir til þess að rannsaka eitthvað allt annað en ég átti að gera. Mér finnst samsæriskenningar vera áhugamál sem maður heldur út af fyrir sig, maður vill ekki að fólk haldi að maður sé alveg farinn,“ segir Rebekka.

„Já, algjörlega, ég hef alltaf trúað því að heimurinn sé ekki jafn saklaus og hann lítur út fyrir að vera og því meira sem ég skoða því meira áttaði ég mig á að ég hafði rétt fyrir mér,“ bætir Aldís við.

Aldís hafði því samband við Rebekku og stakk upp á því að þær myndu byrja með hlaðvarp saman.

„Aldís er líka frænka mín þannig að ég gat ekki falið mig fyrir henni lengi. Hún vildi einhvern með sér til að jafna út orkuna og það hentaði vel að hafa neikvæða skeptíska manneskju eins og mig. Við vegum mjög vel upp á móti hvor annarri að því leyti að Aldís er mjög orkumikil og hávær og ég er mjög róleg og raunsæ, sem er bara besta blandan held ég,“ segir Rebekka hlæjandi.

Mikil rannsóknarvinna Aldís segir mun meiri rannsóknarvinnu hafi legið að baki hlaðvarpsgerðinni en hana grunaði.

„Það tekur mig nokkra daga að skrifa þættina þar sem ég vil vera búin að rannsaka sannanirnar sjálf. Ég vil ekki fara með rangt mál. Það er mjög skemmtilegt að rannsaka þetta allt, maður dettur í eitthvert svarthol og allt í einu er ég búin að sitja í marga klukkutíma að skrifa,“ segir hún.

Hver er ykkar uppáhalds samsæriskenning?

„Ég er mikið að skoða samsæriskenninguna um Jeffrey Epstein eftir að ég horfði á heimildarmyndina um hann á Netflix í fyrra. Þegar maður byrjar að skoða þessa umræðu um hvað gerist bak við lokaðar dyr hjá háttsettu fólki þá er ekki leið til baka,“ segir Rebekka.

„Ég er sokkin aðeins of djúpt í geimverukenningarnar. Er að skrifa þátt sem snýst um hvort geimverur hafi komið á jörðina og unnið með yfirvöldum. Ég er búin að finna svo mikið af sönnunum sem bakka upp þessa kenningu. Þetta er allavega kenningin sem er efst í mínum huga,“ svarar Aldís.

Sammála um Díönu

Er einhver samsæriskenning sem þið eru nánast alveg vissar að sé rétt?

„Við erum báðar sammála um að dauðdagi Díönu prinsessu var ekki slys. Aldís trúir öllu á meðan ég efast meira um hlutina og reyni að ná henni niður á jörðina, sem gengur ekki alltaf nógu vel. Oft endar þetta á að ég er byrjuð að trúa kenningum sem mér þóttu áður fáránlegar, því Aldís getur verið mjög sannfærandi og kemur með sterk rök fyrir flestu sem hún finnur,“ svarar Rebekka.

Rebekka telur mikinn áhuga fólks í dag á hlaðvörpum um glæpi eða samsæri mögulega orsakast af því að fólk vilji flýja eigin raunveruleika um stund.

„Sérstaklega á tímum sem þessum. Stundum er ekkert betra en að slökkva á hausnum og hlusta á smá samsæriskenningar. Við höfum öll gott af því að taka lífinu ekki of alvarlega,“ segir hún.

Aldís tekur undir það. „Fólk hefur skoðanir á hvað er satt og hvað ekki. Ég elska samsæriskenningar því þær fá fólk til að efast og ekki endilega trúa öllu sem maður les, sér eða heyrir.“

Á hverju getur fólk átt von í þáttunum hjá ykkur?

„Fólk má búast við miklum rökræðum, skemmtilegum kenningum og fólk má búast við að kannski sjá mögulega heiminn í öðru ljósi, þar sem mikið af sönnunum er til fyrir mörgu sem við ræðum. Ekki misskilja mig, við tökum líka kenningar sem eru aðeins langsóttari en það er ekkert minna áhugavert,“ svarar Aldís.

Þættina Samsæri er hægt að nálgast á podify.is.