Þegar kemur að barneignum er tíðrætt um þátt kvenna sem eðlilega bera hitann og þungann ef kalla má af getnaðinum sjálfum sem þó þarf iðulega bæði kynin til. Í vestrænum og tæknivæddari samfélögum er einnig eitthvað um tæknisæðingar sem koma þá til þegar par getur ekki eignast börn. Við rannsóknir á frjósemi og möguleikum til að eignast barn er eðlilegt að skoða báða aðila og í tilfelli karla er oftar en ekki verið að horfa til magns sæðisfrumna og framleiðslu.

Rannsóknir hafa sýnt að karlmenn á vesturlöndum hafa á síðustu 45 árum verið á stöðugri niðurleið hvað varðar magn sæðisfrumna og sér ekki enn fyrir endann á því. Vísindamenn hafa haft af þessu slíkar áhyggjur að þetta ástand muni skila sér í almennt minni frjósemi og barneignum og að karlar kunni að verða ófrjóir með tímanum. Síðastliðin 45 ár hefur magn sæðisfrumna dregist saman um tæplega 60% í körlum á vesturlöndum  án þess að góð skýring sé þar á og er kallað eftir alþjóðlegri samvinnu til að átta sig á orsökum vandans.

Þegar litið er til magns sæðisfrumna hjá karlmönnum í Afríku og í Kína sem dæmi virðist ekki vera alveg sami vandi á höndum, þar eru hærri hlutföll í mælingum. Tenging við umhverfisþætti líkt og mengun, ýmiskonar efni, plast og phtalöt, reykingar, áfengisneyslu, offitu og aðra lífsstílsþætti hafa verið nefndar en enginn veit af hverju þetta gerist í raun og veru. Umræðan um Phtalöt er hávær en þar er um að ræða efni sem tengjast plastvinnslu og agnir sem hafa áhrif á hormónastarfssemi beggja kynja, en að því virðist sérstaklega testosteroni hjá körlum. Rannsóknir hafa sýnt fram á truflun á þessari starfssemi sem og mögulega fæðingargöllum á kynfærum karla. Í dýratilraunum hafa komið fram breytingar tengdar slíkum efnum sem renna stoðum undir þessar kenningar, en frekari gagna og rannsókna er þörf til að slá þessu föstu.

Sé það rétt að umhverfisþættir hafi slík áhrif sem þessi og útskýri einnig hærri tíðni eistnakrabbameina hjá körlum í hinum vestræna heimi þá er verk að vinna, enda augljóslega mikilvægt að frjósemi karla líkt og kvenna sé viðhaldið. Mörg vestræn lönd hafa séð hnignun í frjósemi og barneignum, hvort sem kenna má þessum þætti um sérstaklega sem og fleirum. Í Danmörku eru 8% barna til komin vegna tæknisæðingar. Fæðingaríðni hefur farið lækkandi þar sem og í Þýskaland, Bandaríkjunum og víðar með þeim afleiðingum að þjóðirnar eru ekki að endurnýja sig ef svo mætti kalla. Hér kemur fleira til auðvitað líkt og aldur og geta líkamans almennt til barneigna sem minnkar með aldrinum. Hraðar hjá konum en körlum í gegnum tíðina, en það gæti verið að breytast. Karlar ættu því að vera meðvitaðir um eigin heilsu almennt og viðhalda henni með heilbrigðum lífsstíl og jafnvel mati á þessum þætti sem getur skipt sköpum uppá framtíðar hamingju og myndun fjölskyldu með maka sínum. Getuleysi karla er þeim mikið mál með hækkandi aldri vegna risvanda og úthalds til að stunda samfarir en frjósemi hefur ekki verið svo mikið atriði fyrr en kannski núna.