Haustsýning Hafnarborgar er Allt á sama tíma sem er níunda sýningin í haustsýningaröð, þar sem hugmynd sýningarstjóra er valin úr innsendum tillögum. Sýningarstjórar þetta árið eru Andrea Arnarsdóttir og Starkaður Sigurðarson.

Allir miðlar eiga erindi

„Við lögðum mikla vinnu í umsóknina og völdum unga listamenn sem okkur finnst hafa ákveðna tengingu. Þessir listamenn eru allir frekar ungir, tilheyra sömu kynslóð, útskrifuðust allir úr sama skóla, Listaháskólanum, og eru á svipuðum stað í lífinu. En þeir gera mjög ólíka hluti og það langaði okkur til að fanga í sýningunni. Í dag eiga allir miðlar erindi inn á listasöfnin svo við erum með mjög fjölbreytt framboð á sýningunni og fjölbreytta listamenn,“ segir Andrea.

Verk eftir Valgerði Sigurðardóttur.

„Ungir listamenn gera ekki mikinn mun á miðlum. Þeir eru vanir að sjá málverk á sama stað og höggmynd eða gjörning, en þannig var það ekki hér áður fyrr. Á sýningunni er allt frá hefðbundnu olíumálverki yfir í steypuskúlptúra, keramík, pappamassaskúlptúra, myndvarpanir og upptökur af gjörningum. Það er frjálst flæði á milli listaverkanna þótt þau séu unnin á ólíkan hátt,“ segir Starkaður.

Skírskotun í hversdagsleikann

„Mörg listaverkanna eru með skírskotun í það hversdagslega, þarna eru til dæmis tengingar við íþróttir, krossgátur og stafina og setningarnar sem fólk er með á veggjunum heima hjá sér eins og: Live, Love, Home,“ segir Andrea.

Verk eftir Auði Lóu Guðnadóttur og í bakgrunni er málverk eftir Steingrím Gauta Ingólfsson.

„Bára Bjarnadóttir tekur líka fyrir mjög hversdagslegan hlut en gerir hann mjög flókinn. Grunnurinn er heitur sumardagur þar sem hún fer í lautarferð og myndar en svo vinnur hún efnið sem hún tekur á ljósmynd í gegnum alls konar þrívíddarforrit og bjagar raunveruleikann á ákveðinn hátt. Hún blandar saman raunveruleika raunveruleikans og raunveruleika internetsins og hins stafræna,“ segir Starkaður.

„Við erum líka með afar femínískt verk eftir Sigrúnu Gyðu Sveinsdóttur. Hún fékk konur til að sitja fyrir nánast naktar og þær eru þarna í hópi. Þarna hefur hún skapað mjög sterkt vídeó,“ segir Andrea.

Hér er greinilega spennandi og fjölbreytileg sýning á ferð og sýningarstjórarnir lögðu mikið upp úr því að listaverkin féllu vel inn í rýmið. „Það er mjög áhugavert hvernig hægt er að láta öll þessi mjög svo ólíku listaverk passa inn í sama rými og sama samhengi,“ segir Starkaður.