„Maðurinn minn er forritari og það var haft samband við hann frá Google um vinnu á einni af skrifstofum Google í Evrópu. Við völdum Stokkhólm. Sjálf var ég í meistaranámi í félagsráðgjöf og átti meistaraverkefni og starfsnám eftir þegar við fluttum út. Ég fékk að klára meistaranám mitt í félagsfræði úti og hóf svo störf sem félagsráðgjafi í Stokkhólmi árið 2017, sama ár og við Heiðar eignuðumst son okkar, Dag.“

Það er vinsælt að fara í stuttar ferðir fyrir jólin í Svíþjóð og fjölskyldan fór eitt árið í kaffihúsaferð í eyjuna Vaxholm, í skerjagarði Svíþjóðar.

Endurskrifuð regla

Fjölskyldan setti sér í byrjun óskrifaða reglu að verja jólunum annað hvert ár í Stokkhólmi og hitt á Íslandi. „Við verðum í Svíþjóð í ár og verða það fjórðu jólin okkar hér. Við erum þó búin að endurskoða þessa reglu enda þykir okkur orðið notalegra að vera í Svíþjóð um jól. Við munum samt ekki hætta að heimsækja Ísland um jól. Það hljómar kannski einmanalegt að vera fjarri fjölskyldunni um jól en það er þó ekki. Þegar maður býr í útlöndum verða vinir manns eins og fjölskylda. Við heimsækjum vinina oft yfir hátíðirnar.

Eitt árið var áramótunum fagnað með vinapari í Stokkhólmi. Í útlöndum, fjarri fjölskyldunni, þá verða vinirnir eins og fjölskylda.

Eitt sem fæstir áttar sig á, áður en þeir flytja utan, er að eftir ákveðinn tíma muntu alltaf sakna einhvers. Fjölskyldan okkar býr öll á Íslandi, en eftir sjö ár í Stokkhólmi eigum við vini á báðum stöðum. Sama hvort við búum hér áfram eða flytjum til Íslands, þá munum við alltaf sakna annars hvors.“

Aðventuboðin eru vinsæl í Stokkhólmi og ýmsar kræsingar í boði.

Blandaðar hefðir

Klara segir að fjölskyldan hafi eðlilega blandað jólahefðunum sænsku og íslensku svolítið saman. „Þegar við erum í Svíþjóð um jól erum við ekkert að stressa okkur á hangikjötinu, ora baununum og jólaölinu. Við höfum bara í matinn það sem okkur þykir gott. Eitt árið komu foreldrar mínir um jól og tóku með sér sitthvað góðgæti. Í faraldrinum vorum við föst hér um jól. Við elduðum þá bara sænska jólaskinku á hamborgarhryggsmátann. Þetta var auðvitað ekki eins, en við fengum smjörþefinn af íslenskum jólum.

Það er alltaf gaman að leika sér í snjónum.

Við erum heppin að íslensku jólasveinarnir koma við í Svíþjóð til að gefa börnunum í skóinn. Sonur minn var meira að segja smá kvíðinn að fara inn í herbergið sitt að sofa. Honum þótti mjög framandi að einhver karl myndi teygja höndina inn um gluggann til sín og gefa sér í skóinn. Við tölum líka mikið um Grýlu, Leppalúða og jólaköttinn. Dóttir mín sagðist vona að hún fengi nýja flík fyrir jólin svo hún færi ekki í jólaköttinn. Samt er ég búin að útskýra að um þjóðsögu er að ræða. Við þurfum kannski að fara að tóna þetta aðeins niður,“ segir Klara og hlær.

Við höldum eins og Svíarnir upp á Lúsíu 13. desember, hjá því verður ekki komist með börnin í skóla og leikskóla. Það eru keyptir búningar og börnin syngja á meðan foreldrarnir horfa á. Í fyrra var Vaka lasin og þá horfðum við á Lúsíutónleikana í sjónvarpinu. Þetta er afar notaleg stemning.“

Jólin byrja 13. desember þegar Lúsía syngur. Eitt árið var Vaka lasin og fjölskyldan horfði á Lúsíutónleikana í sjónvarpinu í staðinn.

Alltaf jafn spenntir fyrir síldinni

Á meðan Íslendingar gúffa í sig kæstri skötu, hamborgarhrygg og hangikjöti á jólunum gæða Svíarnir, að sögn Klöru, sér á hlaðborðinu sínu. „Hlaðborðið er fastur liður alla hátíðisdaga, á jólum, páskum, miðsumri og fleira.“

Á hefðbundnu sænsku hlaðborði er samansafn af köldum og heitum réttum. Köldu réttirnir koma fyrst með síld, gröfnum laxi, makríl, kaldri jólaskinku, paté, eggjum og fleiru. Heitu réttirnir eru oftast sænskar kjötbollur, prinskorv pylsur og heitt og kryddað rauðkál. Í lokin eru bornir fram ostar með vínberjum og sýrðu grænmeti.

„Okkur Íslendingunum þykir hlaðborðið lítið spennandi á meðan Svíanum finnst ómerkilegt að við séum bara með jólaskinku með kartöflum og sósu. Á sænska hlaðborðinu er alltaf kartöflugratín og þykir sérstaklega jólalegt að setja ansjósur út í. Sjálfri finnst mér skemmtilegt að smakka sænska hlaðborðið en sneiði hjá kartöflugratíninu þegar það er með ansjósum. Ég skil samt ekki hvernig þeir geta borðað það sama á öllum hátíðum og alltaf fundist það jafn spennandi.“

Jólaálfurinn lætur fjökskylduna ekki í friði fyrir jólin og er mishrekkjóttur. Hann litaði eitt sinn mjólkina bleika, stal piparkökum og mandarínum, hélt partí og skildi allt eftir í drasli sem Vaka þurfti að taka til.

Andrés stóð þar, utan gátta

Allt frá árinu 1960, klukkan þrjú á aðfangadag, er leikinn sami Andrésar andar þátturinn í ríkissjónvarpi Svíþjóðar og allir horfa á. „Hver jól hef ég ætlað mér að horfa en svo gleymi ég því. Ég er alltaf svo upptekin og hef aldrei séð þáttinn. Mikið var rætt um hann í fyrra enda þykir hann vera barn síns tíma og passa ekki inn í samfélagið í dag. Kannski munum við eftir að horfa þessi jól, hver veit?“

Litlu jólin

Klara er í stjórn Íslendingafélagsins í Stokkhólmi sem planar hittinga fyrir hver jól. „Það mæta aðallega fjölskyldur. Við bökum piparkökur og spilum íslensk jólalög. Þetta er alltaf mjög kósí.“ Aðspurð hvort Svíarnir séu jafnvitlausir í mandarínur eins og Íslendingar segist hún ekki viss. „Ég held ekki, en þær fást í búðunum og krakkarnir fá mikið af þeim í skólanum og leikskólanum. En Svíarnir eru hins vegar alveg æstir í jólaglöggið.“

Piparkökubaksturinn er alger nauðsyn fyrir jólin.

Svíar aðskilja vinnuna meira frá prívatlífinu en Íslendingar. „Makar mæta sjaldnast á vinnutengda viðburði og á mínum vinnustöðum er lítið um hittinga utan vinnutíma. Ég var til dæmis hissa á því að það væri enginn leynivinaleikur og sakna þess svolítið frá Íslandi. Svíar vilja, eins og Íslendingar, verja gæðastundum með fjölskyldunni yfir hátíðirnar, fara á jólamarkaði og skauta. Ég er líka viss um að margir skelli sér á gönguskíði, en það gera Svíarnir svo sem allan veturinn, enda mikil skíðaþjóð.“

Svíar eru snaróðir í jólaglöggina en ekki jafn vitlausir í mandarínurnar eins og Íslendingarnir.

Ef þið flyttuð aftur til Íslands, hvaða sænsku jólahefðir tækjuð þið með ykkur?

„Ég gæti hugsað mér að horfa alltaf á Lúsíutónleikana 13. desember. Þá byrja jólin fyrir alvöru. Svíar mega líka eiga það að maturinn þeirra er barnvænn. Við erum oftast með kjötbollur og pylsur upp á sænska mátann í forrétt fyrir börnin, sem borða ekki hvað sem er. Það væri hefð sem við myndum halda í á meðan börnin eru ung. Við höfum líka lært að öll jól þurfa ekki að vera eins og byrja klukkan sex á aðfangadagskvöld. Ef börnin eru orðin yfir sig spennt fyrir gjöfunum þá borðum við bara fyrr. Svíar byrja sjálfir oft á hlaðborðinu í hádeginu.

Ég hef svo tekið eftir því að Íslendingar eru ýktari í jólagjöfum. Svíar gefa þeim sem eru með þeim á aðfangadagskvöld og finnst það nóg. Það finnst mér hljóma mjög sjarmerandi,“ segir Klara að lokum.

Það þurfa ekki öll jól alltaf að vera eins. Jólin eru hátíð barnanna.