„Við erum mikið að vinna með stoðkerfisnálganir og verkjaútrýmingu og einkunnarorðin eru frelsi í eigin líkama,“ segir Valdís um grunnaðferðafræði Primal Iceland. Hún útskýrir að þær Sigrún hafi verið í jóga undanfarin tíu ár og þeim hafi fundist kjörið að flétta aðferðafræði Primal við jóganálganir.

„Því það er þekkt að jógar byrji að fá eymsli í mjóbaki eða öxlum, úlnliðum eða olnbogum. Og það er alveg þekkt meðal jógaiðkenda, brjósklos og þannig,“ segir Valdís.

Námskeiðið, sem er mánaðarlega og hefst að nýju í nóvember, hafi því verið vel sótt af jógakennurum.„Og við erum í rauninni bara að setja þessar Primal aðferðir inn í jógapælingar, til að gera fólki kleift að bæði stunda jóga á öruggan hátt og fá meira út úr æfingunum, þannig að maður sé að beita sér rétt og sé ekki að valda sér skaða.“

Hún tekur fram að um grunnnámskeið sé að ræða, sem sé öllum opið en ekki bara jóga reynsluboltum. „Þú þarft engan grunn og engan jógagrunn, í rauninni förum við bara rosa vel í grunninn og erum að kenna alls konar stoðkerfispælingar og útskýra af hverju við erum að fá bakverki í daglegu lífi og líka að læra aðferðir til að róa taugakerfið. Við erum mikið að vinna með fólki í streituástandi líka,“ útskýrir Sigrún.

Aðspurð segist Valdís ekki vita til þess að þetta hafi verið kennt áður á Íslandi. Eðli málsins samkvæmt séu námskeiðin vel sótt.

„Það er alveg nóg að gera,“ segir Sigrún sem leggur að nýju áherslu á að þeim stöllum hafi tekist að sameina það besta úr jóga og það besta úr Primal.

„Þetta er heildræn nálgun, ekki bara jóga eða bara Primal, heldur líka að sýna fólki hvernig maður getur átt auðveldara með jógastöðu, þannig að þetta er mikið af styrk og liðleika,“ segir Valdís.

Hún nefnir sjálfa sig sem dæmi og segist í mörg ár hafa átt líkamlega erfitt með ýmsar jógastöður. „Ég var að kenna jóga í nokkur ár áður en ég fann Primal og hef verið að æfa þar núna í hvað, fimm ár og jógastöður sem ég átti ekki breik í þegar ég var yngri, þær urðu bara allt í einu aðgengilegar og núna fatta ég hvernig ég á að fara í þær og jógað varð miklu auðveldara,“ segir Valdís og vísar til líkamlega hlutans.

„Og maður hefur séð ótrúlegan árangur hjá fólki,“ segir hún að lokum. Fólki líði einfaldlega miklu betur í líkamanum.