Í dag hefst femínsk kvikmyndahátíð í Reykjavík, Feminisk Film Festival í annað sinn. Eins og svo margt annað þá fer hátíðin að þessu sinni að mestu fram á netinu.
„Það er núna 20 manna samkomubann en flestir viðburðirnir eru samt á netinu,“ segir Lea Ævars, ein skipuleggjenda í samtali við Fréttablaðið.
„Við erum að reyna að sýna efni og kvikmyndir sem eru ekki í „mainstream“ eða flestir horfa á. Það er fyrst og fremst verið að sýna raunveruleikann eins og hann er og sýna steríótýpur framtíðarinnar, ef þannig er hægt að taka til orða. Þetta snýst um að sjá eitthvað öðruvísi og út fyrir kassann,“ segir Lea.
„Líkt og í fyrra verða á boðstólum kvikmyndaverk eftir konur hvaðanæva að úr heiminum; Frakklandi, Þýskalandi, Íslandi, Egyptalandi, Kýpur, Portúgal, Ísrael, Ástralíu, Noregi og fl. Auk þessa verða viðtöl og panelar ásamt Q&A sett á Vlog-hátíðarinnar“ og að sýndar verði femínskar kvikmyndir og lögð áherslu á kvikmyndir sem eru öðruvísi, með fjölbreyttum kvenhlutverkum og karakterum sem gefa tækifæri „til að umbylta fyrirsjáanlegum kynjamiðuðum normum. Fyrir okkur fjallar femínismi um jafnrétti fyrir alla.“

Öllum boðið frítt í bíó
Í tilkynningu frá hátíðinni segir að í ár verði öllum Íslendingum boðið frítt í bíó heima í stofu.
„Það er því engin afsökun til að taka ekki þátt heima í stofu með popp og kók,“ segir Lea.
Hún segir að það sé mjög erfitt að velja úr það séu svo margar góðar myndir til sýningar á hátíðinni.
„Ég er búin að horfa á þær allar. En opnunarmyndin, Port Authority, er svo frábær að ég er búin að horfa á hana þrisvar sinnum. Ég er sjúklega ástfangin af þessari mynd. Síðan er Snu frá Portugal. Þetta er ástarsaga sem er byggð á sannsögulegum atburðum. Papiche og Cocoon eru báðar um stelpur sem eru að leita að sínum stað í heiminum,“ segir Lea.
Hún telur einnig upp heimildamyndirnar Lift like a Girl frá Egyptalandi, sem er lokamyndin á hátíðinni. Big vs. Small sem Lea segir alveg ótrúlega.
„Þú heldur að þú getur klifið öll fjöll eftir að hafa horft á hana.“
Pólskt horn á hátíðinni
Þá segir hún einnig mjög spennandi að á hátíðinni er pólskt horn þar sem hægt verður að horfa á pólskar myndir heimildar- og teiknimyndir auk þess sem það verður boðið upp á þá nýjung að hlusta á heimildarmynd [e. sound documentary].
„Þetta er áhugavert,“ segir Lea.
Þá er verið að heimsfrumsýna örþáttaröð eftir Júlíu Margréti Einarsdóttur sem heitir Norms.
„Ég er ekki búin að sjá alla seríuna en ég er mjög spennt,“ segir Lea.
Á hátíðinni eru þó nokkur málþing, meðal annars um tökukonur, birtingarmynd LGTBQI+ samfélagsins í sjónvarpi og kvikmyndum og sérstakt málþing um ofbeldi í nánum samböndum. Þá er kvikmyndagerðarkonan Halla Kristín Einarsdóttir heiðursverðlaunahafi hátíðarinnar í ár.
„Það eru áhugaverðir panelar, eins og Fabúlera, með Gabrielle Kelly. Það er stuttmyndanámskeið. Það verður breyting frá því síðast þar sem allir þátttakendur fá „one on on“ með henni en svo verður málþing með henni á laugardaginn. Það er opið öllum og fjallar um stuttmyndir. Þar verður kona sem starfar fyrir Sundance-hátíðina og ætlar að segja frá sínu starfi auk tveggja rithöfunda,“ segir Lea Ævars.
Námskeiðin sem eru í boði eru bara fyrir konur eða þau sem upplifa sig sem konur.
„Þetta er hátíð til að auka sýnileika kvikmyndakvenna,“ segir Lea.