Salat getur verið margs konar. Salat með ávöxtum er sérstaklega gott á sumrin á góðviðrisdögum. Það er frískandi og bragðgott. Hér eru uppskriftir að nokkrum salötum sem henta vel með grillmat.

Salat með mangó

Litríkt en einfalt sumarsalat með mangó, chili-pipar, límónu og kóríander hentar vel með grilluðum laxi, kjúklingi eða marineruðum lambakótilettum. Uppskriftin miðast við fjóra.

2 þroskaðir mangó

½ rauðlaukur

1 rauður chili-pipar

½ poki klettasalat

1 límóna

½ búnt ferskt kóríander

½ búnt fersk minta

Skrælið mangóinn og skerið í bita. Skerið rauðlaukinn í þunnar sneiðar og fínhakkið chili.

Setjið klettasalat, mangó, rauðlauk og chili í skáp og kreistið límónusafa yfir. Dreifið kryddjurtum yfir.

Vatnsmelóna og fetaostur fara einstaklega vel saman, líkt og tómatur og mozzarella.

Sumarsalat með vatnsmelónu

Ferskt, sætt og djúsí salat sem hentar eitt og sér í hádeginu eða sem meðlæti með hvers lags grilluðu kjöti. Uppskriftin miðast við sex.

800 g vatnsmelóna

1 rauðlaukur

1 agúrka

10 kirsuberjatómatar

½ búnt fersk minta

½ búnt ferkst kóríander

1 sítróna

1 msk. fljótandi hunang

Fetaostur að vild

Skerið vatnsmelónuna í bita og fjarlægið fræ, setjið í skál. Skerið rauðlaukinn smátt. Skrælið agúrkuna og skerið í helminga eftir endilöngu. Skrapið úr kjarnann með teskeið og skerið í bita. Skerið tómatana í tvennt og setjið allt saman með melónubitunum.

Skerið mintu og kóríander smátt og bætið við í skálina. Kreistið sítrónusafa og dreifið hunangi yfir og hrærið. Ágætt að bragðbæta aðeins með salti og pipar.

Skerið fetaost smátt og sáldrið yfir salatið. Best er að borða þetta salat strax.

Grískt salat er hægt að borða eitt og sér eða hafa sem meðlæti með grillmat.

Grískt salat

Alltaf gott salat og passar einstaklega vel eitt og sér með góðu brauði og tzatziki sósu. Salatið er líka mjög gott með grillmatnum. Uppskriftin miðast við fjóra.

3 tómatar

8 kirsuberjatómatar (má sleppa)

½ rauðlaukur

1 agúrka

1 krukka kalamataólífur

2 msk. ólífuolía

1 msk. þurrkað óreganó

1 haus jöklasalat eða annað eftir smekk

1 sneið grískur fetaostur (150 g)

3 dl tzatziki sósa

Skerið tómatana í bita og kirsuberjatómata í tvennt. Skerið laukinn í þunnar sneiðar. Setjið í skál.

Skrælið agúrku að mestu, deilið henni í tvo parta, takið fræin frá með skeið. Skerið í bita og setjið saman við tómatana og laukinn. Setjið olíu út í ásamt óreganó. Blandið saman og látið standa í nokkrar mínútur.

Þvoið salatið, skerið í grófa bita og setjið á stórt fat. Setjið tómat- og agúrkublönduna yfir. Lokst er fetaostabitum stráð yfir. Ágætt er að dreifa nýmöluðum pipar yfir.

Tzaziki sósa hentar vel með grísku salati en mikið borðað í Grikklandi með mat.

Tzatziki sósa

Þessi sósa er mikið notuð í Grikklandi og í Tyrklandi. Það er hægt að kaupa hana tilbúna en meira gaman að gera hana sjálfur. Það má skipta út jógúrt fyrir sýrðan rjóma ef fólk kýs svo.

3 dl grísk jógúrt

1½ agúrka

½ tsk. salt

2 stór hvítlauksrif

½ tsk. pipar

Rífið agúrku í rifjárni og dreifið salti yfir hana. Látið standa í 5-10 mínútur en setjið þá í viskastykki og vindið þannig að vökvinn síist frá. Blandið saman við jógúrt og pressaðan hvítlauk. Bragðbætið með nýmöluðum pipar.