Það er tilvalið að bjóða upp á frískandi og létta eftirrétti í giftingarveislunni, hvort sem það er sitjandi borðhald eða standandi veisla, segir Eggert Jónsson, bakari og konditor. „Það eru tískusveiflur í eftirréttum eins og öðru en sjálfum finnst mér léttir eftirréttir, t.d. í glasi eða í skál, henta vel eftir góða máltíð. Ég hef undanfarið gert mikið af brúðartertum sem eru hraunaðar með hvítu súkkulaði og kakósmjöri og njóta mikilla vinsælda og svo eru franskar makkarónur alltaf vinsælar.“

Eggert Jónsson, bakari og konditor, gefur lesendum hér tvær góðar uppskriftir að slíkum réttum.

Súkkulaði- og kókosmús

25 glös

Kexblanda

1 pakki gott engiferkex

100 g brætt smjör

½ tsk. kanill

Kexið mulið og öllu blandað saman. Ein msk. í hvert glas.


Engifersúkkulaðimús

250 g mjólk

50 g engifer

400 g karamellusúkkulaði

5 g matarlímsblöð (2 stk.)

500 g rjómi

Matarlímsblöð sett í kalt vatn í 10 mín. Hitið mjólk og saxað engifer að suðu, bætið matarlímsblöðum út í og sigtið engiferið frá. Hellið yfir súkkulaðið og hrærið. Léttþeytið rjómann og blandið út í súkkulaðiblönduna þegar súkkulaðiblandan er orðin ca. 32°C.

Svissneskur marengs

60 g eggjahvíta (2 stk.)

90 g sykur

Sjóðið vatn í potti og setjið eggjahvítur og sykur í stálskál yfir vatnsbað og hitið blönduna í ca. 55°C. Þegar blandan er orðin heit þá er hún stífþeytt.

Kókosmús

9 g matarlímsblöð (4 stk.)

300 g kókospúrra

90 g svissneskur marengs

270 g rjómi

Matarlímsblöð sett í kalt vatn í 10 mínútur. Sjóðið helminginn af púrrunni og léttþeytið rjómann. Setjið matarlímsblöðin út í heita púrruna og hrærið. Næst fer restin af púrrunni út í. Þegar blandan er ca. 32°C er marengsinum bætt út í og blandað varlega með sleif. Að lokum er rjómanum blandað út í.

Karamellupopp

1 poki popp

210 g sykur

100 g vatn

1 msk. smjör

Sykur og vatn sett í pott og soðið þangað til blandan er orðin ljósbrún. Bætið smjörinu út í og hrærið. Hellið yfir poppið og blandið þessu saman með skeið. Saltið smávegis.

Samsetning: Kexblandan í botninn, súkkulaðimús yfir og svo kókosmús. Skreytt með karamellupoppi.

Súkkulaðimús með mangói og ástaraldini

25 skálar


Kexblanda

1 pakki gott hafrakex

100 g brætt smjör

½ tsk. kanill

Kexið mulið og öllu blandað saman. Ein msk. í hverja skál.


Súkkulaðimús

250 g mjólk

400 g mjólkursúkkulaði

5 g matarlímsblöð (2 stk.)

500 g rjómi

Matarlímsblöð sett í kalt vatn í 10 mínútur. Hitið mjólk að suðu, setjið matarlímsblöðin úti og hellið yfir súkkulaðið, hrærið. Léttþeytið rjómann og blandið út í súkkulaðiblönduna þegar hún er orðin ca. 32°C.


Svissneskur marengs

90 g eggjahvíta (3 stk.)

135 g sykur

Sjóðið vatn í potti og setjið eggjahvítur og sykur í stálskál yfir vatnsbað. Hitið blönduna í ca. 55°C. Þegar blandan er orðin heit þá er hún stífþeytt.


Mangó- og ástaraldinmús

10 g matarlímsblöð (5 blöð)

200 g ástaraldinpúrra

100 g mangópúrra

225 g svissneskur marengs

300 g rjómi

Matarlímsblöð sett í kalt vatn í 10 mínútur. Sjóðið ástaraldin­púrruna og léttþeytið rjómann. Setjið matarlímsblöðin út í heita púrruna og hrærið. Næst fer mangó­púrran út í. Þegar blandan er ca. 32°C þá er marengsinum bætt út í og blandað varlega með sleif. Að lokum er rjómanum blandað út í.


Kex til skrauts

125 g sykur

35 g hveiti

50 g ástaraldindjús eða appelsínusafi

50 g smjör (brætt)

Öllu blandað saman og sett í kæli í smástund. Næst smurt þunnt út á plötu og bakað við 190°C í 7-9 mín.

Samsetning: Kexblandan í botninn, súkkulaðimús yfir, næst mangó- og ástaraldinmúsin og að lokum skreytt með kexinu.