Fólk

Frisbíkast með keðjusög

Orri Freyr Finnbogason sveiflar keðjusög í margra metra hæð í vinnunni. Hann er eini arboristi landsins og keppir í frisbíkasti með keðjusög á Skógarleikunum um helgina. Orri vill efla skógarmenningu landans. Hann segir að íslenskir skógar séu auðlind af fyrirtaks smíðavið.

Orri Freyr Finnbogason eyðir vinnudögunum yfirleitt uppi í tré, í margra metra hæð, vopnaður keðjusög. Hann vill fá fólk út í skóg til að njóta náttúrunnar og segir íslenska nytjaskóga mikla auðlind. Hann keppir í frisbíkasti með keðjusög á Skógarleikunum í Heiðmörk á morgun. MYND/SIGTRYGGUR ARI

Frisbíkast með keðjusög snýst bara um að skjóta viðarskífum út í loftið með keðjusög og keppa um að skjóta þeim sem lengst. Þetta er er ný keppnisgrein á Skógarleikunum þetta árið. Reyndar verða keppendur valdir sérstaklega í þessa grein,“ segir Orri Freyr Finnbogason, arboristi og skógræktarmaður, en hann er einn aðstandenda Skógarleikanna sem haldnir verða í Heiðmörk á morgun.

Keppt verður í fleiri greinum, svo sem í axarkasti og að afkvista trjáboli, kljúfa eldivið, rúlla trjábolum og í að „hlaupa upp tré“ eins og Orri orðar það. Markmiðið sé að kynna fólki hvað unnið sé úti í skógi og efla skógarmenningu landans.

„Við viljum fá fólk út í skóg. Íslendingar eru enn svo ung skógarþjóð og okkur vantar hefðirnar, til dæmis að fara bara út í skóg að grilla og tálga,“ segir Orri.

Á Skógarleikunum verði líka mikið um að vera fyrir krakka, til dæmis læri þau að lita efni með hráefnum úr skóginum, kljúfa eldivið með exi og kjullu og fá að grilla brauð yfir eldi, tálga og vefa úr plöntum.

Orri segir íslenska skóga stærri en margir geri sér grein fyrir og talsverð framleiðsla fari fram úr íslenskum við.

„Við eigum orðið mikla auðlind um allt land af nytjaskógi og vinnsla á smíðaefni eykst hratt. Íslenskur viður er mjög góður til smíði, til dæmis eru grenitrén okkar þétt og bein. Öspin er lúmskt góður smíðaviður, með fallegan, dökkan kjarna. Í Heiðmörk er timbri flett og það þurrkað í þurrkgámi, Skógrækt ríkisins framleiðir talsvert af borðum, kurl, spæni og girðingastaura. Það er nóg til og hægt að gera meira. Það vantar bara að smiðir og hönnuðir uppgötvi þennan möguleika,“ segir Orri.

Trjásnyrtingar í margra metra hæð er ekki fyrir lofthrædda. Sigtryggur Ari

Eini arboristinn

Starfstitill Orra, arboristi, hljómar ókunnuglega í eyrum en það er alþjóðlegt heiti yfir fólk sem vinnur við að klifra í trjám, til þess að snyrta þau eða fella þar sem stórvirkum tækjum verður ekki komið við. Orri segist sá eini á landinu og fór utan til að læra.

„Ég hafði verði skógræktarmaður í tíu ár þegar ég fór til Noregs og svo til Bandaríkjanna að læra. Ég fer einnig til Svíþjóðar að læra meira og fer til Slóveníu í sumar. Námið snýst um að læra að nota keðjusög sem skógarhöggsmaður, klifra í trjánum með sérstökum búnaði og síðast en ekki síst þarf maður að vita hvað er að gera þarna uppi, læra um trén og trjásnyrtingar,“ segir Orri og viðurkennir að starfið sé ekki hættulaust. Hæstu trén á Íslandi séu yfir 30 metra há.

Sigtryggur Ari

„Það getur auðvitað ýmislegt farið úrskeiðis þegar maður klifrar upp í tré með keðjusög,“ segir Orri sposkur. „Við vinnum undantekningalaust tveir saman, ef eitthvað hendir klifrarann uppi í trénu getur hinn farið upp og náð honum niður. Ég er búinn að þjálfa upp klifrara og vinn einnig með klifrara frá Danmörku. En þetta er ekkert fyrir alla. Í Bandaríkjunum hef ég klifrað 40 metra upp í tré og var sjúklega hræddur. En ég var með góðan kennara sem sendi mig bara aftur og aftur upp þar til hræðslan hvarf,“ segir Orri

Skógarleikarnir hefjast á morgun klukkan 13 í Furulundi í Heiðmörk og standa til klukkan 17.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fólk

Fólk velur að eiga gott hjónaband

Fólk

Glasafrjóvgun í Prag skilaði tvíburum

Fólk

Lífssaga falin í prinsessuskóm

Auglýsing

Nýjast

Frískandi eftirréttir í brúðkaupið

Tölurnar á bak við brúð­kaup aldarinnar

Bitist um fyrsta hamborgarann

Ungir Píratar með pizzukrók á móti bragði

Selma Björns­dóttir leik­stýrir ást­föngnum Shakespeare

Byrjuð í ­með­ferð: „Ekkert stór­­­mál“ að missa hárið

Auglýsing