„Ég tek þessu meira sem leiðum fordómum,“ segir tónlistarmaðurinn Friðrik Ómar Hjörleifsson um ummæli Gunnars Braga Sveinssonar, sem sagði á barnum Klaustri í hópi þingmanna í síðustu viku að skipan Geir Haarde sem sendiherra hefði sloppið í gegn „eins og smjör á smokknum hjá honum Friðriki Ómari“.

Fjölmörg óviðurkvæmileg ummæli Gunnars Braga og annarra þingmanna sem í samkvæminu voru staddir hafa í dag verið fordæmd.

Sjá einnig: „Ekki smyrja smokkinn með smjöri“

Gunnar Bragi greindi frá því í morgun að hann hefði sent Friðriki Ómari afsökunarbeiðni. 

Friðrik Ómar staðfestir að hann hafi fengið skilaboð frá Gunnari Braga en að hann hafi reyndar ekki svarað þeim enn. „Þetta er dapurt,“ segir Friðrik Ómar við Fréttablaðið, beðinn um að bregðast við ummælum þingmannsins. Hann taki þessu þó ekki persónulega, því sennilega hafi Gunnar Bragi gripið í nafn hans vegna einhverrar ímyndar. Friðrik Ómar er samkynhneigður.

„Ég hef ekki ákveðið hvað ég sendi til baka,“ segir hann. Friðrik segist af þessu tilefni hafa til gamans í gærkvöldi brætt smjör í potti og sett smokk út í. Útkomunni deildi hann með fylgjendum sínum á Instagram. „Ég hef aldrei blandað þessu tvennu saman áður,“ segir hann léttur í bragði.