„Ég held að þau hafi kannski bara viljað fá svolítið skandinavísk áhrif á stykkið og það heppnaðist bara mjög vel og var ansi fyndið því allir í teyminu eru Bretar nema ég,“ segir leikkonan Halldóra Þöll Þorsteins um Blóðlínu, nýjan, rokkþungan söngleik á Edinburgh Fringe-hátíðinni.

Systur munu berjast í Blóðlínu þar sem stílíserað vopnaglamur leysir hefðbundin dansatriði af hólmi.
Mynd/Jane Hobson

„Lögin eru öll frumsamin og hópurinn er yfir höfuð hæfileikasprengja. Við erum ellefu, sem leikum og spilum á hljóðfæri, ásamt höfundunum sem höfðu ekki mikinn tíma til að rannsaka hlutina þannig að við hin gátum alveg sjálf haft mikil áhrif á sýninguna og ég kom sérstaklega með tungumálaþekkinguna og norrænu goðafræðina sem ég hef yfir höfuð mikinn áhuga á.“

Það gustar af Halldóru í hlutverki Friggjar.

Taktfastur vopnaburður

Konur eru í forgrunni annars nokkuð hefðbundins víkingadrama í Blóðlínu og Halldóra, sem leikur gyðjuna Freyju og fleiri hlutverk, segir söngleikinn ekki síst keyrðan áfram af æsilegum bardagaatriðum í bland við þungarokk og þjóðlagatónlist.

„Það er rosalega mikið stuð og mjög gaman að gera þetta og það sem gerir þessa sýningu ansi byltingarkennda er að við erum að berjast á sviðinu í takt við lögin sem eru sungin.“

Kvenpersónur hertaka fornan karlaheim víkinganna í söngleiknum sem er eitt af um það bil 3.000 atriðum á hinni fornfrægu Fringe-hátíð í Edinborg.
Mynd/Jane Hobson

Sverð og skildir eru því á lofti með tilheyrandi djöfulgangi þar sem Halldóra segir að bardagar yfirtaki hefðbundinn söngleikjadans í ansi flottum og flóknum atriðum.

Fallið í frjóan jarðveg

„Þetta er frábær sýning og við erum að fá mjög góð viðbrögð og meðmæli frá áhorfendum og mjög góða dóma og ég held að fólk sé að verða ansi spennt fyrir þessu út af því að þetta er alveg svolítið sérstakt út af fyrir sig,“ segir Halldóra sem hefur meðal annars bæði verið sögð bera af sem „rokkgellan“ Frigg og að söngur hennar, í anda Jesus Christ Superstar, sé besta lagið í sýningunni.

Þór og Loki láta bassann og gítarinn tala þegar þeir hlutast til um málefni þorpsbúa

Halldóra Thoell, eins og hún kallar sig á erlendri grundu, lærði í London en býr á Íslandi um þessar mundir þótt hún gæti ílengst eitthvað úti ef vel gengur.

„Eins og staðan er núna sýnum við hérna í Edinborg út mánuðinn en það er verið að stefna á túr um Bretland á næsta ári. Það væri alger draumur,“ segir Halldóra og bætir við að stefnt sé á að gefa tónlistina í sýningunni út almennilega á plötu og að hópsöfnun sé í gangi fyrir útgáfunniog frekari útrás Blóðlínu.