Lífið

Friðgeir er alltaf á vaktinni

Húsvíkingurinn Friðgeir Bergsteinsson býr í Breiðholti, heldur með KR, er harður Tólfumaður og meðlimur í Karlaklúbbnum Kjörþyngd.

Húsvíkingurinn góðhjartaði Friðgeir Bergsteinsson verður fremstur í flokki stuðningssveitar Tólfunnar á HM í Rússlandi. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Fjölmargir kannast við nafnið þó þeir þekki ekki manninn. Friðgeir Bergsteinsson á sér margar hliðar, milli þess sem hann hvetur landsliðið til dáða þá flengist hann með tónlistarmönnum landshorna á milli en gefur sér samt tíma til að fara á kappleiki með KR, er einarður stuðningsmaður þeirra.

„Það er ótrúlegt að Ísland sé að keppa á HM, aldrei átti maður von á þessu þegar maður var krakki, en miðað við árangurinn þá eigum við að geta gert stórkostlega hluti hvert sem við förum“, - segir Friðgeir Bergsteinsson sem er eldheitur stuðningsmaður landsliðsins og einn af kjarnameðlimum Tólfunnar stuðningsliði þess. 

Fyrsti leikur Íslands á heimsmeistaramótinu verður gegn Argentínu á laugardaginn kemur í Moskvu, félagar í Tólfunni verða að sjálfsögðu á svæðinu til að hvetja liðið og landsmenn áfram til sigurs.

„Ég átti miða á Nígeríuleikinn og var mjög sáttur við það en í gær fékk ég þær frábæru fréttir að ég væri líka að fara á Ísland - Argentínu, það er algjör veisla framundan“.

Er HÚH-ið búið að vera?

Meðlimir Tólfunnar eru ómissandi á landsleikjum, þeirra hlutverk er að leiða stuðningsmenn áfram með söngvum, trommuslætti og hinu margfræga vikingaklappi sem eru löngu orðið heimsfrægt.

Fyrr í vor bárust þær fréttir að óvíst væri hvort trommur yrðu leyfðar á völlunum í Rússlandi, það olli uppnámi á meðal stuðningsmanna sem gengu umsvifalaust í málið og er nú unnið að lausn á því. 

Mögulegt trommubann á leikjum truflar ekki væntingar knattspyrnuaðdáenda um heim allan sem bíða þess að Íslendingar láti víkingaklappið óma um Rússaveldi allt á meðan keppninni stendur. Það er magnað hvað HÚHið er enn vinsælt erlendis, en eru menn ekkert orðnir þreyttir á því hér heima? Kannski tímabært að skipta því út?

„Ég má ekkert segja en það er ýmislegt sem hefur verið í undirbúningi sem mun koma áhorfendum á óvart strax í fyrsta leik,“ – segir Friðgeir með pókersvip og neitar að uppljóstra því hvort HÚHinu verði skipt út fyrir annað og magnaðara klapp.

Liðsmenn Tólfunnar undirbúa óvænta uppákomu á leikjum Íslands á HM - HÚH-ið gæti verið á útleið. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Friðgeirsvaktin“

Friðgeir fer ekki leynt með aðdáun sína á Knattspyrnufélagi Reykjavíkur en hann hefur haldið með liðinu frá barnsaldri. Hann er ötull sjálfboðaliði í kringum leiki og gengur í öll verk.

Félagsmál eru hans helsta áhugamál. Það eru ófá verkefni sem hann hefur komið að, tónleikahald, góðgerðarsamkomur og fjáröflunarkvöld eru meðal þess sem Friðgeir hefur skipulagt einn eða í samstarfi við aðra.

En hvað drífur hann áfram, hvers vegna að leggja alla þessa vinnu á sig? „Ég elska félagslíf og mér finnst gaman að vera í kringum fólk. Ég vil láta gott af mér leiða og segi alltaf, hlúum að þeim sem þess þurfa. Það er gefandi að vinna með öðrum og sjá verkefni verða að veruleika. Félagar mínir kalla það sem ég geri Friðgeirsvaktina merkja það #friðgeirsvaktin á Twitter, ég hef bara gaman af því.“

Lífsspeki Friðgeirs

Hjálpsemi og góðmennska einkenna framkomu Friðgeirs sem er allt annað en sjálfselskur á tíma sinn og orku. Hann segist fylgja einfaldri lífsspeki sem hann hefur tileinkað sér og er hans leiðarljós í lífinu. 

Lífsspeki Friðgeirs; „Taktu hvern dag í þessu lífi og lifðu honum sem gjöf, gerðu hann betri, búðu til skemmtilegar minningar og njóttu. Sýndu væntumþykju og hlúðu að þeim sem þess þurfa. Vertu þú sjálfur og komdu fram við aðra eins og þú vilt að komið sé fram við þig og vertu sá sólargeisli í lífinu sem þú vilt vera! Lifðu með enga eftirsjá og lifðu alla daga eins og hann sé þinn síðasti.”

„Ég vil láta gott af mér leiða og segi alltaf, hlúum að þeim sem þeim sem þess þurfa.” Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Áfengisneysla er tímasóun“

Fyrir nokkrum árum síðan ákvað Friðgeir að segja skilið við áfengi og setti tappann í flöskuna frægu, hann er ófeimin við að ræða þá ákvörðun sem hann segir gæfuspor.

„Mér fannst tímasóun að drekka, vakna í eftirsjá og með móral. Þó ég hafi ekki lent í neinum vandræðum kvöldið áður þá sá ég eftir tímanum sem fór í þetta, mér fannst leiðinlegt að vakna þungur á morgnanna og tapa heilum degi í timburmönnum, sóun á dýrmætum tíma í lífinu.“

Hann nýtti sér ekki meðferðarstofnanir né AA samtökin til að ná tökum á neyslunni. Með stuðningi fjölskyldu og vina náði hann markmiði sínu og hefur lifað án áfengis frá árinu 2011.

 „Ég byrjaði í fikti eins og allir en hristi hausinn yfir þessu í dag. Sumir fara langt í þessu og finnst neyslan spennandi og skemmtileg en það er ekkert í þessu fyrir mig“.

Friðgeir starfar sem aðstoðarmaður tónlistarmanna, hann hefur unnið töluvert mikið með Birgittu Haukdal og söngvaranum Hreimi Erni sem hann telur einn sinn besta vin. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Karlaklúbburinn Kjörþyngd

Síðustu ár hefur Friðgeir starfað náið með helstu tónlistarmönnum landsins sem hann telur marga hverja til sinna bestu vina. Hann gegnir ýmsum hlutverkum líkt og hann segir sjálfur frá, allt frá því að aka tónlistarfólki á milli staða og tryggja að nægt vatn sé í öllum glösum og þar fram eftir götunum.

„Ég vinn mest með Hreimi Erni Heimissyni sem er einn besti vinur minn og líka Birgittu Haukdal en hún er Húsvíkingur eins og ég. Svo vinn ég líka með Pálma Gunnarssyni, Eyþóri Inga, Magga Eiríks, Stebba Hilmars og mörgum öðrum. Það er alltaf nóg að gera.“

Friðgeir er upptekin ungur maður og er ekki í sambandi í dag en segist samt hafa augun opin ef ástin skyldi banka upp á.

„Ég er mjög upptekin og þegar ég er ekki að vinna þá hitti ég æskufélagana.  Við stofnuðum Karlaklúbbinn Kjörþyngd, og gerum margt saman, æfum og förum mikið á tónleika og svoleiðis,“ – en hvar verður Friðgeir eftir tíu ár? „´hver veit kannski bara giftur fjölskyldufaðir í Vesturbænum“ - sagði Friðgeir og var þar með rokin heim að pakka fyrir Rússlandsferðina.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

KSÍ: „HÚH-ið er öruggt“

Innlent

HÚH! Margir ætla að gera lands­liðið að fé­þúfu

Fréttir

Trommur bannaðar á HM: Víkinga­klappið í hættu

Auglýsing

Nýjast

Teitur og Kara­batic í dag og fyrir tíu árum

Ellý: Ein­hver í Seðla­bankanum þarf rassskell

Rúnar filmaði fæðingu ó­­­kunnugrar konu

Viðkvæmnin „komin út fyrir öll eðlileg mörk“

Rúrik og Nathalia á landsleiknum

Næring+ nýr drykkur frá MS

Auglýsing