Leik­konan Lisa Kudrow greindi frá því í vikunni að hún hafi hatað að vera stjarna í Hollywood. Kudrow er einna helst þekkt fyrir leik sinn í sjón­varps­þátta­röðinni Fri­ends og skaust hratt upp á stjörnu­himininn vegna gríðar­legra vin­sælda þáttanna.

Auð­velt að vera frægur

„Að vera frægur er mjög frá­brugðið því að vera leikari,“ sagði Kudrow. „Það er frekar auð­velt að vera frægur, maður þarf bara að mæta í veislur og vera á réttu stöðunum til að fá mynd af þér í blöðin.“ Það krefjist ekki mikillar vinnu.

„Það er mun auð­veldara en að full­nægja þörfum þínum sem leikari.“ Það krefjist æfingu og hlut­verka sem höfða til leikarans. „Sem er erfitt.“

Lisa Kudrow sló gegn í Friends þáttunum sem karakterinn Phoebe Buffet.
Fréttablaðið/Getty

Hataði stjörnu­lífið

Þegar Fri­ends fór að taka af stað gerði Kudrow ráð fyrir að það væri hluti af starfinu að vera fræg stjarna. „Ég byrjaði að hugsa hvort ég ætti að fara í hitt eða þetta partí og hvort ég ætti að fara núna eða eftir ein­hverjar mínútur,“ út­skýrði leik­konan.

„Ég prófaði þetta og hataði það, virki­lega hataði það.“

Síðar hafi hún áttað sig á því að stjörnu­lífið hefði ekkert með leik­listina að gera. „Ég gat verið leikari án þess að vera stjarna. Ég gat enn­þá fengið hlut­verkin sem mig langaði í og samt farið með son minn í skólann og aftur heim á kvöld til að eyða kvöld­matar­tímanum með eigin­manni mínum.“

Þessari upp­götvun fylgdi mikill léttir og er hún þakk­lát fyrir að hafa ekki fetað aðra braut á ferlinum.