Leikarinn James Michael Tyler er lamaður fyrir neðan mitti eftir harða baráttu við krabbamein. Tyler, sem er þekktastur fyrir að leika kaffibarþjóninn Gunther í sjónvarpsþáttunum Friends, sagði í viðtali við Today þáttinn í morgun að hann glímdi við blöðruhálskrabbamein sem væri búið að dreifa sér inn í bein.

„Þetta er fjórða stigs krabbamein, langt komið. Þetta mun líklegast ná mér,“ sagði Tyler í þættinum. Hann hefur glímt við krabbameinið í þrjú ár, fór það versnandi eftir að hann missti af læknatíma þegar Covid-faraldurinn stóð sem hæst. „Ég missti af prófi, það var ekki gott,“ sagði hann. „Krabbameinið ákvað að stökkbreyta sér í faraldrinum og er nú langt komið.“

James Michael Tyler í endurfundaþættinum.
Mynd/HBOMax

Tyler kom fram í nýlegum endurfundaþætti Friends á HBO Max, talaði hann þar við vinina í gegnum Zoom. „Ég vildi taka þátt í þessu. Upphaflega átti ég að koma á sviðið og vera með þeim og taka þátt í gleðinni,“ sagði Tyler. „Það var mín ákvörðun að gera það ekki og koma þess í stað fram á Zoom, ég vildi ekki að allir sæju hvernig ég væri orðinn. Ég vildi ekki að þátturinn myndi snúast upp í „Ó, Gunther er með krabbamein“.“

Markmiðið hans er nú að vekja athygli á sjúkdómnum. „Markmiðið mitt var að verða 59 ára. Það tókst í maí. Núna er markmiðið mitt að vonandi hjálpa einhverjum með því að koma fram með þetta.“