„Það er mikill rússíbani,“ sagði Friðrik Ómar Hjörleifsson, tónlistarmaður, þegar hann var spurður út í skilnaðinn sinn í þættinum Einkalífið á Vísi. Friðrik Ómar var í 11 ára sambandi sem lauk fyrir fjórum árum.

„Maður þarf að læra af svo mörgu. Maður getur í dag horft til baka og púslað hlutunum saman en bara gott í dag,“ sagði Friðrik í þættinum.

Fann fyrir einmanaleika

Friðrik Ómar sagðist í Vísisþættinum hafa fundið fyrir einmanaleika eftir svo langt samband. „Þessi einmanaleiki sem algjörlega hellist yfir mann. Fyrstu mánuðirnir eru ekkert mál síðan kemur bakslagið. Síðan kemur þessi einmanaleiki. Síðan fer maður allt í einu að kunna vel við það að vera einn.“

Alltaf að syrgja inn í milli

Þegar hann lítur til baka eftir árin fjögur segist hann geta vel séð punktinn sem hann var orðinn sáttur við að vera einn. „En maður er alltaf að syrgja inn á milli. Þetta fylgir manni alltaf eftir langt samband, það er einhver taug, einhverjar tilfinningar, endalaust.“

Einhleypur í dag

Friðrik Ómar er einhleypur í dag. „Ég hef varla farið á deit, út að borða eða eitthvað, síðan þessu sambandi lauk.“ Hann er þó að leiða hugann að því núna, hann var svo spurður hvort það væri erfitt fyrir menn að nálgast einhvern sem væri svona þekktur. „170 prósent,“ sagði hann í þættinum og hló. „Íslenskir strákar… ég meina… en ég er ekkert meiri pakki en hver annar. Ég var í sambandi í 11 ár og það höfðu margir ekki hugmynd um það.“