Söngvarinn Friðrik Ómar varð fertugur í dag og ætlar að fagna ærlega í kvöld með stórtónleikum í Hörpu. Hann gætti þess að eiga inni næga orku og fékk sér sviðasultu frammi fyrir alþjóð á Instagram í aðdraganda tónleikanna.

Friðrik Ómar var fjallbrattur á fertugsafmælisdeginum.
Fréttablaðið/Ernir

Ljósmyndari Fréttablaðsins fangaði síðdegis stemninguna á rennsli hjá söngvaranum í Eldborg. Sjálfur sagðist Friðrik vera orðlaus yfir því að hafa náð að fylla Eldborg og Hof um næstu helgi. Þá hefur frést af bandarískum ferðamönnum sem keyptu sér miða á tónleikana alveg út í bláinn þar sem kjörið þótti að nota ferðina til þess að kíkja á tónleika í Hörpu og þóttust hafa himinn höndum tekið þegar þeim var gerð grein fyrir að þarna væri á ferðinni ein skærasta söngstjarna landsins.

Það verður gestagangur hjá afmælisbarninu í kvöld...
Fréttablaðið/Ernir

„Þó ég geti verið brattur, bjartsýnn og hvatvís þá er þetta framar mínum björtustu vonum. Mig langar að þakka ykkur öllum fyrir stuðninginn og velvild,“ sagði söngvarinn í kveðju til vandamanna sem hann sendi um óravíddir samfélagsmiðlanna.

... og fjölmennt á sviðinu.
Fréttablaðið/Ernir
Sviðasultan kemur sér klárlega vel á sviði Eldborgar.
Fréttablaðið/Ernir
Alls konar hljóðfæraleikarar úr ýmsum áttum styðja við söng afmælisbarnsins.
Fréttablaðið/Ernir
Strengir stilltir saman fyrir stóru stundina.
Fréttablaðið/Ernir