Norskur prófessor, Stefan Gössling, hefur safnað að sér upplýsingum um ferðalög fræga fólksins og reiknað út hversu mikið það losar út í andrúmsloftið. Upplýsingar um ferðirnar fékk hann í gegnum samfélagsmiðla. Sá sem flaug mest er Bill Gates en ferðir hans losuðu um 1.600 tonn koltvísýrings (CO2). París Hilton og Jennifer Lopez komu þar á eftir með 1.260 og 1.050 tonn. Sú sem minnst ferðaðist í flugi var leikkonan Emma Watson með 15 tonn koltvísýrings (CO2). Venjulega fólkið er talið losa um 100 kg. Það er frekar lítill hópur manna sem keyrir upp losunina með orkufrekum lífsstíl, segir prófessorinn. Einkaþotur fræga fólksins eru hluti af þessum lífsstíl. Aðrir sem nefndir voru eru Karl Lagerfeld, Mark Zuckerberg og Oprah Winfrey auk nokkurra stjórnmálamanna og viðskiptajöfra.

Fræga og ríka fólkið hefur mikil áhrif á almenning og lífsstíl hans. Stjörnurnar ná til milljóna í gegnum samfélagsmiðla og þær eru miklir áhrifavaldar. Fræga fólkið sem Stefan nefnir í grein sinni er með samanlagt um 170 milljónir fylgjenda á Instagram. Hann er efins um að fræga fólkið taki þátt í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Þótt það segist vilja breyta heiminum mun það samt halda áfram sínum orkufreka lífsstíl. Sjálfur hefur hann lengi starfað við loftslagsmál og segir að umræðan hafi breyst undanfarið. Hann þakkar Gretu Thunberg fyrir að vekja máls á umhverfismálum og að setja af stað mótmæli undir slagorðinu Föstudagar fyrir framtíðina en þau séu mjög góður þrýstingur á stjórnmálamenn.
Það var til dæmis eftir því tekið þegar John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra og forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum, tók á móti verðlaunum fyrir baráttu í umhverfismálum á Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu nýlega, að hann kom fljúgandi á einkaþotu. Þótti mörgum það skjóta skökku við. Greta Thunberg ferðast um víða veröld en eingöngu á skipum og í lestum.

Stefan bendir á að ungt fólk í dag sé farið að meta hvort flug sé í raun nauðsynlegt. Ungmennin skoða flugið frá því að vera mjög mikilvægt yfir í algjöran óþarfa. Umræðan hefur aukist mikið um flugferðir, ekki bara hjá fáum hugsjónamönnum. Hin unga Greta hefur skapað mikla umræðu langt út fyrir heimaland sitt og hefur áhrif á skoðanir ungs fólks. Þess ber þó að geta að engin þjóð í Evrópu er eins háð flugi og Íslendingar. Aðrar þjóðir geta auðveldlega ferðast með lestum.
Grein Stefans heitir Celebrities, air travel, and social norms.