Eftir fyrri blaðamannafund ríkislögreglustjóra var fyrirsjáanlegt að næstu dagar færu í að ræða auknar rannsóknarheimildir og vopnaburð lögreglu. Þá sem leiðir til að bregðast við breyttum veruleika á Íslandi. Sem er sérstaklega nýr að því leyti að lögreglu hefur ekki áður þótt tilefni til að skilgreina undirbúning árásar sem hryðjuverk. Mér fannst áhugavert að heyra fólk nota mismunandi hugtök yfir sama hlutinn eftir staðsetningu í pólitík. Talað var um afbrotavarnir og hins vegar aukið eftirlit með borgurunum. Það hefur áhrif að orða hlutina á ákveðinn hátt. Allir þó til í að tala um aukna öfgahyggju. Seinni blaðamannafundurinn var líka frekar sjokkerandi. Þvílíkur fjöldi skotvopna, og stór hluti þeirra löglega keyptur. Ég sé fyrir mér ríkislögreglustjóra á kaffistofunni í vinnunni segjandi eitthvað eins og „ég vil minna á að maður velur sér vini en ekki foreldra.“ En auðvitað vitum við enn lítið sem ekkert um þessi tengsl annað en að þau eru til skoðunar. Sorglegasta frétt vikunnar var andlát Svavars Péturs, þvílíkur missir.