„Þar sem ég er horfin inn í Eurovision-búbbluna fannst mér í fyrstu að frétt vikunnar hlyti að vera sú staðreynd að Íslendingar kepptust um að ná miðum á úrslit Söngvakeppninnar,“ segir Ragnhildur Steinunn, dagskrárgerðarkona hjá RÚV og einn kynna Söngvakeppninnar.

„En það er kannski engin frétt að þjóðina þyrsti í glimmer, gleði og glæný Söngvakeppnislög. Eða hvað?“ segir Ragnhildur.

Veltir hún fyrir sér hvort þjóðin hafi ekki, upp til hópa, verið heltekin af júrógleði frá því að söngflokkurinn Icy söng um Gleðibankann 1986.

„Það er kannski viðeigandi að vísa í texta þess lags þegar litið er yfir liðna viku þar sem bankar, blús og að hnýta allt í hnút kom vissulega við sögu. Kvika bauð Íslandsbanka upp í dans, janúar-blúsinn helltist yfir marga eins og úr ískaldri regnfötu og kjaradeilan er einn stór rembihnútur þar sem allir stefna öllum.

Já, og svo gætu auðvitað allir gulu miðarnir verið ágætis myndlíking fyrir gulu viðvaranirnar sem hafa dúkkað upp nær daglega. Ég er hugsi. Frétt vikunnar fyrir mér er hversu hratt tíminn líður, hraðar sérhvern dag og sérhvert kvöld en þá er fullkomið að hlusta á kósí lítið lag frá stúlknasveitinni Flott sem minnir okkur á samstöðu. Leysum hnútinn og dönsum í takt, kæru landsmenn.“